1691 - Sjónvarpsbull

Untitled Scanned 02Gamla myndin.
Hér er lúðrasveit að störfum.

Og málþófið heldur áfram. Um það er ekkert sérstakt að segja. Þetta er einfaldlega háttur háttvirtra og hæstvirtra. Ljótastur finnst mér sá leikur andstæðinga þeirra frumvarpa sem verið er að ræða um að gera ítrekaðar tilraunir til að etja saman landsbyggð og höfuðborgarsvæði. Flestir þeirra sem í málþófinu standa reyna það. Segja fullum fetum að höfuðborgarsvæðið sé að níðast á landsbyggðinni með þessum frumvörpum. Vita þó betur.

Greinilegt er að kvótinn er það dýrmæti sem hugur stjórnmálamanna og LÍÚ-forkólfa er bundinn við. Nær öruggt er að þjóðin er sammála því að óveiddur fiskurinn í hafinu sé þjóðareign en ekki eign örfárra einstaklinga. Líklegt er að deilur um gjald fyrir að fá að veiða þennan fisk endist nokkuð enn. LÍÚ-menn munu þó verða að beygja sig að lokum.

Les oft bloggið hennar Hörpu. Bloggarnir þar eru stundum full-langir. Jafnvel svo langir að mér tekst ekki að klára þá nema með svindli. Svindlaði t.d. þónokkuð í sambandi við athugunina á sögunni um sögu Akraness og samantektinni sleppti ég alveg að mig minnir. Svipað var svo með bloggin um Guðfræðideildina í Háskólanum nema hvað þar sleppti ég kannski ennþá meiru. Kannski hef ég fengið þaðan hugmyndina um að blogg megi helst ekki vera meira en ein Word-blaðsíða. Það er nú ekki mikið og lengri eru krimmarnir og skáldsögurnar sem allir keppast við að lesa. Líklega er það mjög einstaklingsbundið hve margar blaðsíður hver og einn á hægt með að lesa í einu. Eflaust fer það líka eftir því hvað lesið er og með hve mikilli athygli.

Af hverju skyldi mér þykja svona gaman að blogga? Ætli það sé ekki vegna þess að ég þykist svo góður í því. Man eftir að kennari einn hrósaði mér eitt sinn mikið fyrir ritgerð nokkra. Man ekkert hver kennarinn var, en eitthvað svolítið eftir ritgerðinni. Síðan hef ég svosem alltaf verið sískrifandi, en það er ekki fyrr en núna nýlega eftir að ég er með öllu hættur að vinna sem skrifnáttúran hellist yfir mig eins og vatn úr skúringarfötu. Ég geri mér alls ekki neinar hugmyndir um að fá peninga fyrir skrifin. Þau eru mér bara nauðsyn. Get ekki án þeirra verið.

Sú freisting að skrifa sem allra mest helst dálítið í skefjum með því að hafa bloggin ekki óralöng. En það er oft erfitt að hætta. Gæti trúað að ég sé núna að verða búinn með það sambland af sóknarmarki og árskvóta sem ég á. Þ.e.a.s. þá blaðsíðu sem ég má skrifa í dag.

IMG 0267Mistök. Afsakið. Búið að leiðrétta.


Bloggfærslur 7. júní 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband