1665 - Köttur á stærð við belju

022Gamla myndin.
Líklega er verið að ganga á Baulu þarna. Jón Sigurjón Skúlason er lengst t.v. Í öftustu röðinni virðist mér vera Gunnar Grímsson með son sinn Gauta og Hörður Haraldsson. Hina þekki ég ekki. Í næstu röð finnst mér ég þekkja Jón Eðvald Alfreðsson og Magnús Haraldsson og fremst fer greinilega Védís Elsa Kristjánsdóttir.

Þegar ég var í barnaskóla tók kennarinn eitt sinn uppá því að hrósa mikið ritgerð sem ég hafði gert og teikna línurit yfir hana á töfluna. Mér fannst ritgerðin ekkert séstök og einkum vera stæling á einhverju sem ég hafði heyrt eða lesið annarsstaðar. Um kött á stærð við belju og annað enn ótrúlegra. Samt er það svo að síðan þetta var hefur mér alltaf fundist ég vera nokkurs konar rithöfundur. Kannski beið ég bara of lengi eftir því að springa út og verða frægur. Aðstæður voru aldrei þær réttu. Byrjaði meira að segja seint að blogga. Þó er ég kannski frægastur fyrir það. En auðvitað er ég ekkert frægur samt. Finnst þó sjálfum að ég gæti hæglega skrifað um hvað sem er, ef mér bara dytti það í hug.

Er sniðugt að linka á fréttir til að reyna að fá fleiri til að kíkja á bloggið sitt? Ég held ekki. Fréttir sem ég les eru sjaldnast kveikjan að því sem ég skrifa og við þær kringumstæður er það í mínum augum hálfgert plat að linka. Samt skiptir það mig auðvitað máli hve margir lesa það sem ég skrifa. Mér finnst ég ekkert vera að endurtaka mig mikið hér í blogginu. Öðrum gæti samt fundist það án þess að segja mér frá því.

milli innheimtaVarið ykkur á milli-innheimtubréfunum, þau eru hættuleg. Fara jafnvel milli skinns og hörunds, hvernig sem það er nú hægt.

Mér finnst fésbókin vera orðin óttaleg ruslakista. Því er samt ekki að leyna að innan um allt ruslið eru gullmolar. Sem myndadreifari stendur fésbókin að ýmsu leyti framar blogginu og til að benda fólki á athyglisverðar greinar annarsstaðar er hún ágæt. Að öllu öðru leyti er hún misheppnuð og tímaþjófur hinn mesti.

Einu sinni í háloftunum sá ég þotu ösla áfram í reykskýi. Kannski var hún alltof nálægt. Hún var ekki sérlega langt frá þotunni sem ég var í og kom á móti henni svo ekki gat ég fylgst með henni lengi. Aldrei hef ég séð þotu á flugi nær mér en þetta. Það sem vakti mesta athygli mína var mengunin. Hún var hrikaleg. Kolsvartur reykurinn var eins og gríðarmikið ský í kjölfarinu. Himingeimurinn er vissulega stór en á endanum getur verið að hann fari að finna fyrir þessum ósköpum. Talsvert margar þotur held ég að séu á flögri á hverjum degi. Kannski mengaði þessi þota meira en aðrar. Samt held ég að háloftamengun skipti máli.

Nú er allt að verða vitlaust útaf forsetakosningunum. Mest er að sjálfsögðu spekúlerað í hugsanlegum úrslitum og þýðingu þeirra. Ágætt er að fréttamiðlarnir hafi um eitthvað annað að að skrifa en Hrunið. Ósköp eru vangaveltur þeirra þó oftast ómerkilegar. Samt er það svo að fjölmiðlarnir og netmiðlarnir virðast stjórna að miklu leyti skoðunum fólks um fjölbreytilegustu hluti. Fyrir daga netsins hafði fólk oft ekki annað en fjölmiðlana og kaffiþambið. Nú er þetta breytt því allir með lágmarkskunnáttu og aðgang að tölvum geta látið ljós sitt skína. En er birtan eitthvað meiri með öllum þessum ljósum. Efast má um það.

IMG 0010Sólsetur í Kópavoginum.


Bloggfærslur 7. maí 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband