1649 - Hungurleikarnir o.fl.

ólisigGamla myndin.
Veit ekki með vissu hver þetta eru nema Óli Sig. er lengst til vinstri.

Hvernig verður kosningabaráttan í forsetakosningunum? Það er ekki gott að segja. Ólafur er enginn aukvisi í þessu. Baráttan getur vissulega orðið hatrömm og skoðanakannanir verða áreiðanlega margar og mismunandi. Ótrúlegt er að kosið verði um stjórnarskrána samtímis forsetakosningunum. Ríkisstjórnin hefur áður lúffað og mun gera það í þessu máli. Nýtur lítils trausts en mun samt halda sínu striki, enn um sinn. Framboð Þóru Arnórsdóttur minnir um sumt á framboð Kristjáns Eldjárn á sínum tíma. Tímarnir eru þó breyttir og hann fór ekki fram gegn sitjandi forseta heldur tengdasyni hans. Úrslitin geta samt hæglega orðið svipuð. Ég kaus Kristján á sínum tíma og einnig Vigdísi og Ólaf þegar hann bauð sig fram fyrst. Fésbókin, Bloggið, Vefmiðlarnir og vörpin öll munu hafa mikil áhrif í þessu máli og alltof fljótt er að vera með einhverja spádóma.

Einhverjir bregðast enn við því sem ég skrifa hér á bloggið og á fésbókina. Það er mér nóg. Ef enginn léti svo lítið að lesa það sem ég sendi frá mér á netið mundi ég hætta þessu. Sumt af viðbrögðunum sést vel af þeim sem lesa innlegg mín, en alls ekki allt. Fólk er sífellt að verða opinskárra í sínu netlífi og það er auðvitað bara gott. Nauðsynlegt er þó að sýna svolitla aðgát. Stórir og öflugir aðilar reyna að safna sem mestum upplýsingum um sem flesta. Jafnvel þó staðið verði við öll gefin loforð um meðferð gagna geta tímarnir að sjálfsögðu breyst. Gögnin fara ekkert í burtu og geta hvenær sem er birst aftur.

Finnst óþarfi hjá Samherjamanninum öskuvonda að hafa í hótunum við allt og alla, þó hann telji sig hafa Dalvíkinga flestalla að vopni. Gæti komið illa í bakið á honum seinna. Man ekki betur en sami maður hafi verið hálfgrátandi yfir því hvað Davíð Oddsson væri vondur við hann í upphafi Hrunsins. Þá var hann að ég held stjórnarformaður (Íslandsbankans fyrrverandi) Glitnis.

Gott dæmi um lélega eftiráskýringu er fullyrðing „Evrópuvaktarinnar – Björns Bjarnasonar og Styrmis Gunnarssonar“ um að mestur hluti milljónastyrks frá Alþingi eða ESB til þeirra félaga hafi farið í að greiða þeim ritlaun. Enginn trúir þessari vitleysu, en ekki verður málið skoðað neitt frekar. Auðvitað hafa þeir Björn og Styrmir stungið þessum peningum í vasann og það vita allir, en andstæðingar þeirra hafa eflaust gert eitthvað svipað og segja ekki neitt til að róta ekki um of í skítnum. 

Hef nú lokið við að lesa bók tvö af „Hunger games“ sem kallast „Catching fire“ á frummálinu. Hún er spennandi (einkum undir lokin) eins og sú fyrsta en ekki eins vel skrifuð. Fyrir alllöngu las ég smásögu um samskonar hugmynd og notuð er í þessum þríleik. Semsagt um raunveruleikaþátt í sjónvarpi þar sem drepa skal þátttakendurna í raun og veru. Hugsanleg (eða líkleg) kvikmyndun sögunnar truflar höfundinn svolítið og eins greinilegir „kynbombustælar“, en samt er bókin ágætlega gerð og góð afþreying.

IMG 8191Hlaupið í Hörpunni.


Bloggfærslur 6. apríl 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband