1605 - Hundaskítur

Untitled Scanned 05Gamla myndin.
Þessi mynd er af Hótel Hveragerði. (Ljósbrá) Skemmtileg mynd. Ekki veitir af að styðja stigann vel.

Skelfing hefur fólk gaman af að breyta fésbókar-prófæl myndunum sínum. A.m.k. er þetta þannig með mína fésbókarvini. Mér finnst ég alltaf vera að fá tilkynningar um slíkt. Apropos fésbókartilkynningar; þær eru að verða algjör plága því ég asnaðist til að setja nokkra sem skrifa mjög mikið upp sem nána vini. Fésbókin fullyrti að viðkomandi fengju ekkert að vita um það. Svo er ég alltaf að fá beiðnir um leyfi til að gera hitt og þetta, en ég er ekkert snokinn fyrir því. Annars er ég sífellt að fjölyrða (mest neikvætt) um fésbókina og dettur alltaf í hug málshátturinn frægi. Það er tungunni tamast sem er hjartanu kærast. Ósköp hefði ég lítið um að skrifa ef engin væri fésbókin.

Eitt mest notaða blótsyrðið sem við strákarnir notuðum í gamla daga var orðið „hundaskítur“. Hundaskítur þetta og hundaskítur hitt. Þú veist ekki hundaskít um þetta. Hefur ekki hundaskíts vit á því. O.s.frv. Ef við vildum vera óvenju krassandi og magnaðir gátum við talað um mannaskít. Einstöku sinnum fundum við slíkt (eða héldum það) úti í móa en þorðum varla að koma nálægt slíku ógeði. Flugurnar létu sér það samt vel líka; en tölum ekki meira um það.

Það er fátt sem mér dettur ekki í hug. Sjálfum finnst mér þó að mér detti alltof fátt í hug. Bloggað get ég samt fjandann ráðalausan þó ég hafi raunar ekkert að segja. Hafi líka varla hundaskíts vit á nokkrum hlut.

Nú er stóri bílaplansjökullinn að hverfa. Svolítil ísing eftir en með sama áfrahaldi hverfur hún líka. Skíthræddur samt um að veturinn heimsæki okkur aftur. Á þó ekki von á að það verði neitt desember-janúar-skot en snjór á áreiðanlega eftir að koma hér á StórKópavogssvæðinu. Þó ekki væri nema til þess að nýta eitthvað helvítis iðnaðarsaltið, sem allar geymslur eru fullar af.

Spurning hvort DV er ekki farið að vinna gegn tilgangi sínum. Öfgarnar hjá þeim varðandi hrunið eru slíkar að þær gagnast mest þeim sem vilja þagga allt niður. Samkvæmt DV á að taka alla sem hugsanlega eru á einhvern hátt tengdir Hruninu og velta þeim uppúr tjöru og fiðri ef ekki eitthvað enn verra. Segi bara svona. Ekki fer samt hjá því að umræðan um Hrunið er að breytast. Eðlilegt er að fólk sé orðið þreytt á tuðinu. Fróðlegt verður að sjá úrslitin úr næstu kosningum. Ekki bara fróðlegt, heldur geta úrslit þeirra ráðið miklu um framtíð okkar allra.

Af einhverjum ástæðum fór ég að athuga bloggvini mína á Moggablogginu. (Taldi þá samt ekki) Einu sinni voru þeir alltaf í stafrófsröð og fljótlegt að finna þá ef ég þurfti á að halda.Nú eru þeir það ekki og ég get ómögulega áttað mig á í hvaða röð þeir eru. (Fésbókinni átta ég mig sennilega aldrei á) Kannski hefur þeim fækkað líka; hef bara ekki hugmynd um það. Ekki hef ég breytt stjórnborðinu neitt því ég forðast alltaf að fikta í því. Annars er mikil markleysa að vera að spekúlera í svona löguðu en ég get bara ekki að mér gert.

IMG 7859Snjór um allt.


Bloggfærslur 7. febrúar 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband