1820 - Stjórnarskráin - óvissuferð

Málþóf eða ekki málþóf það er spurningin. Almennt séð og heimspekilega er það mikil spurning hvort meiri ávinningur sé í því að tala of mikið eða of lítið. Með aldrinum hef ég eiginlega orðið meira fyrir að tala (og skrifa) sem minnst. Sumir mundu þó segja að ég geri alltof mikið af því. Kannski tala ég ívið minna en áður en skrifa aftur á móti alltof mikið, held ég. Það er bara svo erfitt að ráða við sig.

Styrmir Gunnarsson hefur dottið í það á gamals aldri að skrifa (og tala) alltof mikið. Að sumu leyti er hann Morgunblaðinu óþægur ljár í þúfu. Beinir athyglinni að því hvernig það var einu sinni og þó núverandi ritstjóri sé líkur Styrmi, þá er blaðið alltöðruvísi núorðið. Pólitíkin hefur líka breyst og Styrmir er strandaður á einhverri eyðieyju. Kannski er Björn Bjarnason einhversstaðar þarna nálæg, en varla fleiri.

Ólafur Stephensen kallar stjórnarskrármálið allt „Illa undirbúna óvissuferð“ í grein á Vísi.is http://www.visir.is/illa-undirbuin-ovissuferd-/article/2012121209852 Óvissuferðir eiga það reyndar til að vera bráðskemmtilegar. Ekki eru menn þó að hugsa um nýja stjórnarskrá sem skemmtiferð. Ólafur vitnar í þrjá fræðimenn sem hann segir að séu ekki „hluti hinna myrku afturhaldsafla eða sérlega andsnúnir núverandi stjórnvöldum“. Þessir menn eru: Gunnar Helgi Kristinsson, Brydís Hlöðversdóttir og Ágúst Þór Árnason. Stjórnlagaráðsmenn voru þó fleiri en þetta og valinkunnir sómamenn þar á meðal, jafnvel fræðimenn.

Helstu gagnrýnisatriði þessa fólks finnst mér vera að tekin sé of mikil áhætta með því að búa til alveg nýja stjórnarskrá og að ekki megi afgreiða mál í miklum ágreiningi. Aðallega eru þau þó óhress með að hafa ekki verið kölluð til frekar en óbreyttur pöpullinn og misheppnaðir stjórnlagaráðsmenn.

Þetta finnst mér a.m.k. og ég held að alveg væri hægt að finna jafnmarga eða fleiri fræðimenn sem væru þeim ósammála um margt sem að þessu snýr. Útilokað er að allir verði sammála um einstök atriði nýrrar stjórnarskrár. Margt bendir þó til að meirihluti þjóðarinnar vilji að ný stjórnarskrá verði gerð.

Ég hef áður sagt að mesta breytingin sem gerð er með nýrri stjórnarskrá er sú breyting að taka stjórnarskrárvaldið af alþingi og færa það í þjóðaratkvæðagreiðslur, sem enginn veit hvernig þróast.

Að því leyti er ný stjórnarskrá eins og óvissuferð. En eru Íslendingar ekki vanir óvissuferðum af þessu tagi? Hefur ekki þróun gengismála verið eins og óvissuferð? Er ekki Hrunið sjálf í vissum skilningi óvissuferð? Er ekki óvissan e.t.v. betri en kyrrstaðan?

Kannski var það samaverðumalltland-sóttin sem drap SÍS á sínum tíma og er hugsanlega að drepa Bónus núna. Datt þetta bara svona í hug.

IMG 2140Takk fyrir komuna.


Bloggfærslur 4. desember 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband