1811 - Að blogga sér til hugarhægðar

Súlurnar sem Moggabloggsguðirnir sýna og eiga að tákna aðsóknina að blogginu mínu eru æði misjafnlega langar. Mér er sama um það. Reikna bara með að þeir sem leggja í vana sinn að koma hingað, komi ekkert endilega daglega, og það hvenær þeir koma, fari lítið eftir því hvað ég skrifa. Sjálfur blogga ég bara þegar sá gállinn er á mér og hversvegna skyldi ég ekki geta unnt lesendum mínum þess sama. Greinilega mætti samt auka aðsóknina með því að blogga sem oftast og kommenta sem mest á daglegar fréttir.

Bróðir minn sem býr á Bolungarvík sendi mér línu um Lettann í Álfafelli sem ég skrifaði um fyrir nokkrum dögum. Hann fæddist þann 19. júní 1912 í Degahlen á Kúrlandi/Lettlandi og bar í byrjun nafnið Ulf van Seefeld. Kom til Íslands 1955 og vann þar víða. Síðast lengi við Gamla Kirkjugarðinn í Reykjavík. Á Íslandi nefndi hann sig Úlf Friðriksson og lést á Hrafnistu þann 19. september 2009. Nánari upplýsingar um hann má fá með því að lesa minningargreinar frá þeim tíma. www.mbl.is/greinasafn/grein/1302281/

Blogg um blogg er mitt forté. Enskusletta er þetta og líklega komin úr frönsku. Nenni ekki að gá að því. Þegar upplýsingar um allt mögulegt eru bara eitt gúgl í burtu hættir maður að gá að slíku. Það er einfaldlega leiðinlegt að þykjast vita allt mögulegt. Ég hef lengi vanist því að hugsa í orðum, og hugsa hægt. Það virðist henta blogginu ágætlega og úr verða hið þægilegasta og átakalausasta rabb. Segja má að það sé um daginn og veginn eða allt og ekkert.

Þó meinlítið sé er samt ekki laust við að skoðanir felist í þessari bloggaðferð. Það er t.d. skoðun að minnast ekki á hlutina. Hið tæknilega rugl um fjármál sem virðist tröllríða allri stjórnmálalegri umræðu dagsins og allir þykjast vera sérfræðingar í, hentar mér t.d. allsekki. Í hinni fjármálalegu umræðu virðist það skipta mestu máli að vera nógu illskiljanlegur og nota nógu kröftug orð. Það er ekki mitt forté og þessvegna get ég ekki tekið fullan þátt í pólitískri umræðu og rekst illa í flokki.

Hjörleifur Guttormsson er óánægður með að enginn VG-liði í prófkjörinu í Reykjavík skuli nefna andstöðu við ESB í kynningu sinni. Þetta er að sumu leyti eðlilegt. Áreiðanlegt er að hluti sigurs VG í síðustu kosningum var vegna þess að þeir voru taldir vera á móti ESB. Þeir sem trúðu því og vildu endilega styrkja fjórflokkinn höfðu varla annan kost.

Svanur Gísli Þorkelsson ritar alllangan pistil um svonefnda Þorláksbúð í Skálholti. Grein Svans er öfglaus og saga hússins er þar rakin nokkuð ítarlega. http://svanurg.blog.is/blog/svanurg/entry/1269507/#comments Ekki er hægt annað en fallast á röksemdir Svans um að húsið þurfi að rífa eða færa. Ekki hef ég í hyggju að endursegja greinina en þeir sem áhuga hafa á þessu máli ættu endilega að lesa hana.

Kisa.IMG 1985


Bloggfærslur 22. nóvember 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband