6.1.2012 | 23:33
1581 - Guðni Jónsson
Gamla myndin.
Ingibjörg Jónsdóttir frá Velli.
Guðni Jónsson fullyrðir í sögu sinni um Stokkseyri og hefur margskonar rök fyrir því að áður fyrr hafi allt svæðið milli stóránna Ölfusár og Þjórsár verið kallað Eyrar og Eyrarbakki hafi sömuleiðis náð alla leið þar á milli. Kannski er þetta leiðinlegt fyrir Eyrbekkinga dagsins í dag en það sem nú er kallað Eyrarbakki segir hann að hafi fengið það nafn á 19. öld.
Bækur Guðna um Stokkseyri eru tvær og mjög fróðlegar um þetta svæði og óhætt er að hvetja íbúa þess til að kynna sér þær. Árið 1960 voru þær gefnar út í einu bindi og það er einmitt það sem ég fékk lánað á Bókasafni Kópavogs um daginn.
Ég er sammála Jónasi Kristjánssyni um að lítils virði er að eiga stóran Gjaldeyrissjóð sem allur er í skuld. Er ansi hræddur um að erfiðlega gangi að losna við gjaldeyrishöftin. Varla verður það fyrr en við neyðumst til þess að afnema þau. Meðan þau eru við lýði verður okkur úthýst úr hópi siðaðra þjóða.
Auðvitað erum við fyrst og fremst það sem við étum. En hver ræður hvað við étum? Jón Ásgeir kannski? Eflaust er það eitthvað misjafnt en þeir sem það gera hljóta fyrst og fremst að bera ábyrgð á því hvernig við erum. Þannig má finna einhverja til að kenna um allt. Easy.
Um þetta leyti í fyrra held ég að ég hafi verið á Tenerife. Ekki var snjónum fyrir að fara þar. Samt er ágætt að vera hér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.1.2012 | 10:26
1580 - Um trú og myndir
Gamla myndin.
Líklega er þessi mynd tekin í Lækjargötu á afmælisdegi Reykjavíkur (200 ára). Langt og eyðilegt grill.
Gaman er að éta. Einkum góðan mat. Þessvegna eru jólin svona vinsæl bæði hjá ungum og öldnum. Þegar fólk fer að eldast finnst því lítið til jólagjafanna koma þó börnin elski þær. Með aldrinum fækkar jólagjöfunum. Litlir krakkar fá stundum fleiri jólagjafir en þau hafa nokkur not fyrir. Hafa jafnvel ekki áhuga fyrir þeim öllum. Gera sér kannski ekki grein fyrir af hverju þær koma svona margar í einu.
Matarveisla um jólin er engin nýjung. Menn hafa lengi gert sér dagamun um þetta leyti. Enda er daginn núna farið að lengja. Nú er alveg áreiðanlegt að vorið kemur. Það tekur dálítinn tíma en endirinn verður sá.
Norðausturleiðin er að opnast eftir því sem sagt er á mbl.is. Ef t.d. er farið frá Noregi til Japan fyrir norðan Rússland er Norðausturleiðin farin. Norðvesturleiðin er aftur á móti fyrir norðan Kanada og ég held að hún sé erfiðari. Ef þetta með hnatthlýnunina er rétt ættu þessar leiðir að opnast áður en langt um líður. Ekki er sjálfgefið að Íslandi skíni eitthvað gott af þessu. Það þarf að bera sig eftir björginni. Viðkoma á Íslandi gæti samt verið góður kostur og við Íslendingar ættum að búa okkur undir að taka þátt í þessu kapphlaupi, því kapphlaup verður það um hver býður besta þjónustu á svæðinu.
Ætti ég að fara að skrifa pólitískar bollaleggingar á fésbókina jafnóðum og þeim lýstur niður í huga minn. Mér hefur svosem dottið það í hug, en það hefur hvarflað frá mér aftur. Skyldi nokkur nenna að lesa það? Allavega eru nokkrir sem lesa þessi daglegu blogg mín. Kannski eru þau samt full-löng. Kannski væri betra fyrir mig að stytta þetta svolítið. En ég hef bara svo margt að segja.
Einhverjir skoða bloggið mitt aðallega vegna myndanna. Þeim má benda á að þegar ég er búinn að færa þær úr óflokkaða albúminu, eins og ég er önnum kafinn við núna, má skoða þær hér á Moggablogginu því ég hendi yfirleitt aldrei neinu.
Ég hef undanfarna daga tekið svolítinn þátt í trúarlegum pælingum á bloggi Hrannars Baldurssonar http://don.blog.is/blog/don/ Ég get að vísu ekki tekið til orða með samskonar heimspekilegu yfirlæti og hann en hann má þó eiga að hann svarar öllum og reiðist ekki þó að honum sé sótt.
Það er a.m.k. hlýrra í undirgöngunum en úti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)