1469 - ESB

Íslendingum verður allt að tuði. Bloggið er tuð. Fésbókin skrunar og njósnar. Fjölmiðlarnir eru fáfengilegir. Vefmiðlarnir vitlausir. Hvað er þá eftir? Eiginlega ekkert nema blessað tuðið. Forsetinn tuðar um icesave. Geir tuðar um einhverja vonda kalla sem hafa dregið sig einan fyrir dóm og svo er endalaust tuðað um hrunið. Ég nenni þessu bara ekki.

Opnuð hefur verið síða (skynsemi.is) fyrir þá sem vilja skora á alþingi að hætta við umsóknina um aðild að Evrópusambandinu.

Unnur Brá Konráðsdóttir, Ásmundur Einar Daðason og Gunnar Bragi Sveinsson hafa lagt fram á alþingi þingsályktunartillögu um að hætta viðræðunum við Evrópusambandið. Allöng greinargerð fylgir þessari tillögu og niðurlag hennar er svona:

Niðurlag.
Mikilvægt er að nýta krafta stjórnsýslunnar og fjármagn ríkisins til þeirra brýnu verkefna sem fyrir liggja í kjölfar bankahrunsins. Það er slæmt fyrir orðspor Íslands á alþjóðavettvangi að halda áfram aðildarferlinu þegar bersýnilegt er að hugur fylgir ekki máli.
Íslandi og Evrópusambandinu er lítill greiði gerður með því að íslensk stjórnvöld efni til aðildarviðræðna á þeim hæpnu forsendum sem hér hafa verið raktar. Fyrirsjáanlegt er að aðildarsamningur verði felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu og sú niðurstaða mun ekki auka velvilja í garð Íslendinga hjá aðildarþjóðum Evrópusambandsins.
Af öllu framangreindu er ljóst að umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu er ótímabær og því hníga öll rök að því að draga hana til baka.

Er velvilji aðildarþjóða Evrópusambandsins í garð Íslendinga eitt af aðalatriðum þessa máls? Það mætti ætla að flutningsmenn tillögunnar teldu svo vera. Satt að segja held ég að þeim fulltrúum Evrópusambandsins, sem á annað borð velta þessum málum fyrir sér, muni finnast það afskaplega fíflalegt að hætta viðræðum núna án þess að gefa þjóðinni tækifæri til að segja hug sinn til endanlegra samninga. Skoðanakannanir koma ekki í staðinn fyrir þjóðaratkvæðagreiðslur.

Eiginlega er ekkert meira um þessa tillögu að segja. Ég er eindregið fylgjandi því að hugsanleg aðild að Evrópusambandinu fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá fyrst er líklegt að deilum um þetta mál ljúki.

Aðstoðarmaður vaktmannsins á Siglufirði.

IMG 6471

Bloggfærslur 6. september 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband