1482 - Fyrsta og eina skíðagangan

Sagði söguna af allri minni skautaiðkun um daginn. Skíðaiðkunin er ekki mikið meiri og nú er ég að hugsa um að segja hana, þó ég hafi eflaust gert það áður hér á Moggablogginu.

Samnorræn sundkeppni var haldin einhvern tíma um miðja síðustu öld. Þá áttu sem flestir að synda 200 metra og vera skráðir sem fulltrúar þjóðarinnar í þeirri keppni og fá rétt til að kaupa sér barm-merki því til staðfestingar. Gert var ráð fyrir að halda þessa keppni reglulega. Á Íslandi var áhuginn fyrir þessari keppni mikill og áreiðanlega miklu meiri en á hinum Norðurlöndunum. Ég man t.d. eftir vörubíl með borða á framstuðaranum þar sem skorað var á fólk að synda 200 metrana.

Ekki er að orðalengja það að Íslendingar sigruðu glæsilega í þessari keppni. Svo glæsilega að hún hefur ekki borðið sitt barr síðan.

Skíðalandsganga var svo haldin nokkrum árum seinna með miklu húllumhæi og áróðri. Þá áttu allir að ganga 4 kílómetra á skíðum. Ekki dugði minna, ef ég man rétt. Engir 200 metrar þar.

Ég ákvað að sjálfsögðu að taka þátt í þessu merka átaki. Það dró ekkert úr mér kjarkinn þó ég hefði aldrei á skíði stigið.

Keppnisdagurinn rann upp bjartur og fagur. Nóg var af snjónum og ákveðið að þeir í Barna og Miðskóla Hveragerðis sem áhuga hefðu á að spreyta sig gætu gert það á spildunni milli Laugaskarðs og Fagrahvamms. Þar var lögð þessi fína braut, kílómeters löng og skyldi fara þá leið fjórum sinnum.

Ég fékk lánuð skíði og brunaði af stað. Eftir nokkra stund lá leiðin niður að ánni og þegar komið var á bakkann átti að beygja til vinstri. Ég hafði semsagt aldrei á skíði komið fyrr og hafði ekki hugmynd um hvernig átti að beygja. Halli var niður að ánni og ef ég hefði haldið áfram að renna mér þangað hefði ég endað í henni. Ég sá því ekkert annað ráð vænna en að láta mig falla á hliðina. Þegar ég stóð upp aftur gætti ég þess auðvitað að taka beygjuna áður en ég fór af stað.

Þetta reyndist vera eini hættulegi staðurinn á leiðinni, en fjórum sinnum þurfti ég að nota þessa aðferð mína, því auðvitað hætti ég ekki fyrr en kílómetrunum fjórum var náð. Ekki hef ég farið aftur á skíði eftir þetta.

IMG 6595Skilti við veginn.


Bloggfærslur 21. september 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband