1479 - Skautar

Einu sinni þegar ég stundaði nám að Bifröst var í útivistartímanum ákveðið að fara í skautaleiðangur niður að Hreðavatni. Ekki man ég glöggt hve mörg við vorum. Líklega svona sex til átta. Ekki bjuggum við svo vel að við ættum öll skauta. Ég fékk léða skauta hjá einhverjum en veit ekki með vissu hvernig aðrir fóru að.

Skautarnir sem ég fékk lánaða voru sagðir vera svonefndir hokkí-skautar. Ég vissi svosem ekkert hvað það þýddi og hafði meiri áhuga á því hvort skautarnir væru nógu stórir á mig. Svo reyndist vera, en naumlega þó. Ég ákvað samt að fara með og láta á skautakunnáttuna reyna. Þegar niður að vatni kom fór ég að troða mér í skautana og gekk það sæmilega. Ég var að vísu alls ekki meðal þeirra fyrstu út á ísinn en heldur ekki langsíðastur.

Þegar út á vatnið kom versnaði málið og ég komst smám saman að því hvað hokkí-skautar eru. Hífandi rok var og stóð það út á vatnið. Sæmilega vel gekk mér að halda jafnvæginu og barst ég fyrir vindinum óðfluga burt frá hópnum. Eftir nokkra stund var ég kominn mun lengra út á vatnið, en allir hinir. Þá fór ég að velta fyrir mér hvað það þýddi að vera á hokkí-skautum. Þó ég hefði aldrei á skauta komið fyrr hafði ég tekið eftir því að engar rifflur voru fremst á skautunum sem ég var á.

Ég fór því að velta fyrir mér hvernig ég ætti að komast til baka og sá að nú voru góð ráð dýr. Eiginlega rándýr. Þegar ég hafði velt þessu fyrir mér svolitla stund ákvað ég að fara ekki lengra fyrr en ráðning á þessu vandamáli væri komin. Ég lét mig því detta og tókst það vel. Ekki meiddist ég neitt og fyrr en varði nam ég staðar.

Ráðningin á því hvernig ég ætti að komast til baka lét samt á sér standa. Eiginlega kom mér ekkert ráð í hug og á endanum skreið ég einfaldlega í land og hef ekki á skauta komið síðan.

Líklega hef ég áður sagt frá þessu hér á blogginu, en góð vísa er aldrei of oft kveðin.

IMG 6554Jón Austmann.

(Auðvitað er þessi stytta af Jóni Ósmann eins og mér var strax bent á - sjá athugasemdir)


Bloggfærslur 18. september 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband