1462 - Nýnasistar

DV auglýsir grimmt nýnasistaflokk eða einhver slík samtök hér á Íslandi. Vísar á nánari upplýsingar á fésbókinni. Þær á að vera hægt að finna undir nafninu „Védís ótugt“. Fésbókarvinir 462. Fjölgar kannski eitthvað á næstunni. Sigríður Bryndís Baldvinsdóttir heitir sú sem rætt er við um þetta mál. DV virðist ekki ætla að ganga í þessi samtök og jafnvel ekki útvarp Saga heldur. Fróðlegt er samt að fylgjast með þessu, þó mig langi ekki til að vera bendlaður við það.

Stórhausaumræðan í athugasemdum mínum fyrir skemmstu kann að tengjast þessu með vissum hætti. Kannski lendir maður í nasistaumræðunni ef maður notar of mikið orð einsog þjóðremba, útlendingahatur, öfgar, fordómar, rasistar, þjóðernissinnar og þess háttar. Líklega þarf maður að fara að vara sig.

Fróðlegt er líka að gúgla „nýnasistar á Íslandi“. Það gerði ég og fékk fleiri linka en ég er líklegur til að skoða nokkurntíma.

Tvennt er það sem ég hef lært núna síðasta hálftímann eða svo í þessum nýnasistafræðum og það er að 18 þýðir í raun og veru „Adolf Hitler“ því A og H eru fyrsti og áttundi stafur stafrófsins. Sömuleiðis þýðir 88 þess vegna „Heil Hitler“. Lengra er ég nú ekki kominn í þessum fræðum.

Bókasafnsmál eru áhugaverð. Ágúst Borgþór bloggar skemmtilega um þau hér: http://www.dv.is/blogg/agust-borgthor/2011/8/28/tynd-bokasafnsbok-seinni-hluti/ Annars hef ég ágæta reynslu af bókasöfnum. Bara passa sig að skila aftur bókasafnsbókunum og borga allar sektir strax. Þær eru hvort eð er oftast manni sjálfum að kenna. Viðurkenni alveg að skemmtilegt væri að fá lögheimtubréf út af einni bókasafnsbók. Það hef ég aldrei fengið og það er eiginlega bölvaður klaufaskapur.

Þetta minnir mig náttúrlega á að fara á bókasafnið í dag. Eina bókin sem ég hafði verulegan áhuga á af þeim sem ég fékk síðast að láni er komin í „lesin spjaldanna á milli“ flokkinn en það var seinni bók Péturs Gunnarssonar um ÞÞ. Ákaflega merkileg bók og ekki er síðri greining Péturs á heimsmálunum.

„Föður mínum“ fékk ég hinsvegar heilsað fyrir hans miklu Sveppabók. Þeir stóðu þar í garðskálanum Helgar tveir, handahafar fræðibókaverðlauna 2009 og 2010, doktor í sveppum og doktor í jöklum; fundur sem gat af sér augljósa spurningu: „En er eitthvað til sem heitir jöklasveppir? Helgi Hallgrímsson svaraði um hæl:

„Það fundust nú reyndar sveppir á Bárðarbungu í fyrra. En þeir uxu í hreindýrshræi.

Þessi klausa er úr bókmenntatímaritinu „Stína“ og er úr grein eftir Hallgrím Helgason sem heitir „Bjargvætturinn í þrasinu“. Þetta tímarit fékk ég m.a. lánað á bókasafninu í dag og eflaust er margt merkilegt í því að finna. Ekki spyrja mig af hverju þetta tímarit heitir „Stína“. Ég hef nefnilega ekki hugmynd um það. Vefurinn þeirra sem þetta tímarit gefa út heitir: http://stinastina.is/ og ég get vel ímyndað mér að það stafi af því að stina.is hafi verið frátekið og þessvegna hafi þeir gripið til þess ráðs að nefna hann þetta.

IMG 6432Sumarnótt á Siglufirði.


Bloggfærslur 29. ágúst 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband