1446 - Niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum

109Gamla myndin.
Veit ekki hver þetta er. Líklega er hún þarna við vinnu sína annaðhvort á Hótel Hveragerði eða Hreðavatnsskála.

Marínó G. Njálsson skrifar í gær heillanga grein um niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum. Margir verða síðan til þess að svara þessari grein hans og koma með sínar hugleiðingar. Ég var fyrst að hugsa um að gera það líka en segja má að tvennt hafi fælt mig frá því. Í fyrsta lagi eru athugasemdirnar svo margar að mín hefði bara týnst í flóðinu. Einnig hef ég nokkuð margt um þetta að segja og hefði jafnvel verið í vandræðum með að koma því í eina stutta athugasemd.

Margt er alveg rétt athugað hjá Marínó og gagnrýni á þessar niðurgreiðslur er oft ansi hjáróma og skrýtin. Oft er jafnvel ljóst að viðkomandi hefur ekki mikið vit á málunum. Marínó segir m.a. í greininni:

„Viljum við hins vegar leggja af beingreiðslur til íslenskra bænda, þá verðum við jafnframt að hafna öllum slíkum niðurgreiðslum á innfluttum matvælum. Annars er samkeppnisstaðan ójöfn. Ég er ekki viss um að íslenskir neytendur yrðu sáttir við það að greiða allt í einu þrefalt verð fyrir maísdós og fimmfalt verð fyrir danska kjúklinga (eða hver hækkunin yrði). Innflutt viðbit myndi skyndilega hækka margfalt og sama gerði sófasettið sem gert er úr niðurgreiddum skinnum. Ég held að betra sé að átta sig á afleiðingunum, áður en tekin er sú ákvörðun að leggja niðurgreiðslur til landbúnaðar af.“

Þetta sem þarna er sagt er einmitt mergurinn málsins finnst mér. Þegar verið er að tala um að leggja niður eða minnka niðurgreiðslur til bænda er ekki verið að tala um að allar aðrar þjóðir geri það líka og samtímis. Það er verið að tala um innlenda aðgerð. Og það munar talsverðu. Breytingin mundi hafa áhrif á allar verðviðmiðanir, það er alveg rétt. Og breytingar erlendis á niðurgreiðslum þar geta hæglega haft mikil áhrif hérlendis.

Það má auðvitað kalla niðurgreiðslur hagstjórnartæki en það nýtist ekki sem slíkt ef bændur einir eiga alltaf að ráða hvernig því er beitt.

Hægt er að líta á niðurgreiðslur til bænda sem tæki til að halda verðlagi niðri á ákveðnum vörum. Þetta tæki virkar þó aðeins á þann hátt ef allir aðrir haga sér nákvæmlega eins. Það er einfaldlega verið að snúa hlutunum alveg á haus þegar því er haldið fram að verðlag hér á Íslandi mundi ekkert lækka ef niðurgreiðslur til Íslenskra bænda yrðu lækkaðar eða afnumdar. Þetta er þó það sem Marínó er að reyna að gera.

Verðlag þeirra vara sem erfitt er að flytja inn mundi að sjálfsögðu hækka ef bændur almennt hættu að framleiða þær. Það er alveg möguleiki að þeir mundu gera það eða heimta a.m.k. sannvirði fyrir þær. Þannig að það er alls ekki einfalt mál að reikna út hver áhrif minnkaðra niðurgreiðsna yrðu. Það er þó bara venjuleg þræta á milli íhaldssemi og breytinga sem þar er á ferðinni. Ekkert lagast ef engu er breytt, það vita allir.

Nú er svo komið að ýmsir telja helstu hættu sem steðjar að íslenskum ungbörnum vera þá að þau séu ofvernduð fyrir hverskyns sýkingum. „Á misjöfnu þrífast börnin best“ er gjarnan sagt. „Það sem ekki drepur okkur, herðir okkur“, segja þeir sem vilja hljóma nógu karlmannlega. Þetta er samt ansi harkalegt gagnvart smábörnum og í rauninni tóm vitleysa. Fólk getur óskapast yfir því að vottar Jehóva séu svo vitlausir að vilja ekki leyfa blóðgjafir en um leið haft mörg orð um það hve íslenskir læknar séu illa að sér þegar komi að meðferð smábarna. Hlutirnir eru bara ekki svona. Ungbarnadauði á Íslendi hefur farið verulega minnkandi á undanförnum öldum og áratugum. Það hefur ekki gerst með því að hunsa læknaráð og einblína á orðtök og málshætti sem oft eru ákaflega lítils virði.

Árið 1993 var gefin út bók sem heitir „Skáldatal með ljóðsprotum, ljóðsporum, ljóðspeglum“. Þessi bók er tekin saman af Sigurborgu Hilmarsdóttur og er með örstuttum ævágripum um 200 ljóðskálda. Hugsanlega ljóðskálda sem ljóð eru eftir í öðrum námsbókum. Bók þessi er ágætis uppflettirit en þó tók ég eftir einum galla á henni. Næst á eftir umfjöllun um Matthías Jochumsson er minnst á Megas. Þarna á milli hefði ég haldið að Matthías Johannessen hefði átt að vera. Sá Matthías semur að vísu ljóð sem ekki falla í kramið hjá mér og hafa kannski ekki gert það heldur hjá höfundi bókarinnar eða námsbókanna sem hún er kennd við. Vel getur verið að um fleiri vantanir af þessu tagi sé um að ræða í bókinni og þess vegna treysti ég upplýsingum í henni ekki eins vel og ég mundi annars gera.

Axel Jóhann Axelsson skrifar um skrýtinn ársreikning hjá N1. Því er ekki að neita að 12 milljarða tap hjá einu fyrirtæki er nokkuð mikið. Rekstrartekjur eru þó svolítið meiri en það. N1 gein yfir öllu sem snerti bíla fyrir fáum misserum síðan. Ætli þetta tap stafi ekki af því. Forstjórinn þar fær mjög góð laun en ætti auðvitað ekki að fá svo mikið sem eina krónu. Það er ekki verðlaunavert að tapa 12 milljörðum króna.

IMG 6304Rautt hús á Akureyri.


Bloggfærslur 12. ágúst 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband