8.7.2011 | 00:15
1415 - Meira um ESB

Hún er líklega tekin í skólaferðalagi fyrir 1960. Þetta var nýjasta tækni þess tíma. (Fyrir norðan). Ég hafði séð hesta teymda fram og aftur til að snúa hrærivélum en aldrei þessa aðferð. Mikil framför frá því að hræra í höndunum greinilega.
Það eru ekki vitrænar rökræður um ESB-aðild ef annar aðilinn setur reglurnar (og feitletrar) til að koma sinni predikun að. Haraldur Hansson sagðist vilja rökræða aðild að ESB en vildi svo (að mínu áliti) bara tala um það sem hann áleit vera óskert sjálfstæði. Það er samt rétt hjá Haraldi að aðildarumræður eru á villigötum ef aðeins er rætt um styrki og undanþágur. Slík umræða snertir alls ekki kjarna málsins. Kjarni málsins er aðildin sjálf. Hver þróunin verður í framtíðinni skiptir mestu máli. Ekki hvernig hlutirnir líta út akkúrat núna. Það er samt ekkert einkennilegt við það þó margir líti fyrst og fremst til veskisins og hvaða áhrif líklegt sé að aðild hafi peningalega séð í nánustu framtíð.
Í mínum huga hafa styrkirnir það markmið að jafna sem mest aðstöðu einstaklinga og auðvitað er líklegra þegar til lengdar lætur að jöfnunin verði í átt til miðjunnar en til toppsins. Við Íslendingar erum vanir að álíta okkur okkur fast við toppinn á öllum sviðum. Ég tel þó svo ekki vera.
Undanþágurnar eru til að milda áhrif þess á þjóðir að taka upp reglugerðir ESB í stað sinna eigin sem oft miða einkum að því að festa í sessi landlæga spillingu og vanþróun til að fá viðkomandi almenning til að sætta sig betur við ofurvald yfirstéttarinnar. Það er ekkert einkennilegt við það að ráðandi stétt líti hornauga allar tilraunir til að taka þetta vald af henni. Að því leyti má auðvitað segja að ESB sé fulltrúi vissrar tegundar af sósíalíseringu.
Ef því er raunverulega trúað að allar þjóðir sambandsins hafi (kannski án þess að vita það) með öllu glatað framtíðarsjálfstæði sínu og hafi enga möguleika á að endurheimta það, þá er það auðvitað rétt að skert eða óskert sjálfstæði skiptir miklu máli. Jafnvel mestu. Svo er þó alls ekki og auðvelt er að sannfærast um slíkt. Rökræður um aðild geta því aðeins haft eitthvert gildi að hægt sé að ræða allt sem hana snertir. Annar aðilinn getur ekki sett fyrirframreglur um að umræðan fari bara fram á sínum forsendum.
Nú er ég að predika og nota mér það að ég á þetta blogg. Umræður í athugasemdadálkum geta einungis farið fram í símskeytastíl. Alls ekki er hægt að koma mörgu að. Nauðsynlegt er að takmarka umræðuna þar sem mest með því að hafa athugasemdirnar stuttar. Læt ég svo útrætt um þetta mál að sinni en viðurkenni að ég var ansi stuttaralegur í svörum við Harald um daginn.
Ef ég á að halda áfram að fabúlera um ESB þá er vel hægt að líta á þá pólitísku þróun sem hefur átt sér stað. Evrópuþjóðirnar væru alls ekki það mótvægi við yfirburðaáhrif USA í heiminum sem þær þó eru ef ekki væri vegna ESB. Samvinna þjóðanna í Evrópubandalaginu hefur á öllum sviðum aukið styrk þeirra á heimsvísu.
Sú gagnrýni að ESB sé klúbbur þeirra ríku til þess að halda þeim fátæku (þróunarlöndunum) í burtu og utan við allar framfarir finnst mér miklu alvarlegri gagnrýni en að ESB leggi undir sig náttúrauðævi aðilarríkjanna og vilji öllu ráða. Auðvitað koma smáríki eins og Ísland ekki til með að ráða eins miklu og stóru ríkin í einstökum málum. Það er auðvitað fáránlegt að gera ráð fyrir því. Smáríkin geta samt á ýmsan hátt ráðið miklu um þróun bandalagsins.
Um daginn birti ég mynd af því sem ég kallaði Stonehenge hið nýja og líka mynd af leirplatta með tveimur fánum. Þetta hvorttveggja er hluti af listaverkum sem skólarnir í Kópavogi standa að og er að finna víða við göngustígana í Fífuhvammi. Fræðsla um ýmislegt sem þar er gæti vel verið hluti af þessu bloggi.
Klassiska aðferðin við að þagga niður í þeim sem eru að jagast útaf spillingu er að bjóða þeim að kjötkötlunum líka. Ekki virðist vera hægt að notast við þessa einföldu aðferð gagnvart DV og þessvegna eru menn svolítið viðkvæmir fyrir því sem þar birtist. Reyna jafnvel að réttlæta sig. Svo má líka kæra blaðamennina og sjá hvort ekki er hægt að hræða þá svolítið. Sjálfsritskoðun er nefnilega best allra ritskoðana frá sjónarmiði þeirra sem telja sig þurfa ritskoðunar við. Sumum finnst svo kannski vera farið að þrengjast við kjötkatlana eða að jagið sé ekki af réttri gerð og þá má prófa að hella sér yfir viðkomandi og skammast svolítið. Þetta þekkja allir og ég ætla ekkert að leggja meira útaf þessu.
Veðrið er svo gott núna að ekki er hægt að ætlast til að fólk lesi blogg í stórum stíll. Nóg er nú samt og blíðudagarnir hér á Íslandi eru sjaldan margir á sama sumrinu.
Hef ekki hugmynd um hversvegna þetta er gert.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)