1434 - Lygasaga

12Gamla myndin.
Starfslið úr eldhúsinu að Bifröst. Veit því miður ekki nöfnin á kvenfólkinu en sennilega er þetta Beggi kokkur lengst til vinstri.

Nú er ég búinn að setja blogg nr. 1433 á sinn stað og get því byrjað strax á bloggi nr. 1434. Skelfing held ég að sumum leiðist að lesa svona bull. Ætti ég ekki frekar að segja frá einhverju bitastæðara.

Lauk í dag við að lesa bókina „Lygasaga“ eftir Lindu Vilhjálmsdóttur. Sjálfsævisögulegar bækur eru ekki margar á íslensku og þær vekja jafnan áhuga minn. Þessi bók var víst gefin út fyrst árið 2004 og hefur sjálfsagt þótt ágæt þá. Sem betur fer er hún ekki löng og fremur fljótlesin. Svo er að skilja á Lindu að hún hafi verið baldinn unglingur og stundað drykkjuskap og fíkniefnafikt þegar hún eltist. Kannski hefur hún skrifað sig frá demónum sínum með þessari bók. Mér finnst bókin ekki verulega góð, en hún er það kannski fyrir þá sem þekkja Lindu. Líklega hefur bókin líka elst illa.

Nú er verslunarmannhelgin að ná hámarki sínu. Og enn rignir. Veðrið er samt alveg ágætt. Mikið er friðsælt í borginni. Engin læti eða neitt. Vildi að það væri alltaf svona. Rigningunni mætti þó sleppa.

Menn eru enn að fjargviðrast útaf atburðunum í Noregi og reyna eins og þeir geta að mjólka það útúr þeim sem þeim finnst styðja sín sjónarmið í pólitík. Hryðjuverk hafa afar lítið með stjórnmál að gera þó óvandaðir stjórnmálamenn reyni eins og þeir geta að notfæra sér þau og ótta almennings við þau.

Þó svo vilji til að fjöldamorðinginn norski hafi ýmis hægrisinnuð viðhorf, er ekki þar með sagt að vinstri menn séu eitthvað lausari við hryðjuverk úr sínum ranni. Það segir samt afar lítið um stefnurnar sem slíkar. Menn reyna t.d. að afsaka áhuga sinn með því að gera ráð fyrir að stefnur flokkanna sem slíkar hafi eitthvað með þann hugsanagang að gera sem fjöldamorðingjarnir básúna. Til þess fá þeir aðstoð fjölmiðla og er lítið er því að gera. Mér finnst sú þörf fólks að vera sammála síðasta ræðumanni vera of almenn.

Ástæðulaust er að blogga í sem lengstu máli ef maður hefur lítið að segja. Ég verð samt dálítið var við þessa tilhneygingu og reyni oft að stytta bloggin mín sem mest þó oft sé erfitt að hemja sig.

Jónas Kristjánsson segist ætla að greiða atkvæði á móti stjórnarskrárdrögunum. Það er hans mál. Samkvæmt því gerir hann ráð fyrir að stjórnarskrárdrögin komi óbreytt að mestu til þjóðaratkvæðagreiðlsu. Ég held líka að svo verði og að þau verði samþykkt.

IMG 6222Þetta minnir á íslenska fánann, en er ekki mjög vel gert.


Bloggfærslur 31. júlí 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband