1424 - Pressan og Sævar Ciesielski

002Gamla myndin.
Þetta er Ólafur Sigurðsson. Myndin er eflaust tekin að Bifröst. Þrátt fyrir innlifunina held ég að hann hafi ekki spilað mikið á gítar.

Harpa Hreinsdóttir óskapast yfir því á fésbókinni að blaðamannsræfill á Pressunni ruglar saman Akranesi og Akureyri. Vel getur samt verið að flest sé rétt í fréttinni að öðru leyti. Blaðamenn upp til hópa eru afar illa að sér í landafræði og réttritum þó þeir haldi stundum annnað. Að rugla saman Akranesi og Akureyri er auðvitað svolítið gróft, en í huga blaðamannsins líklega ekkert verra en að rugla saman Ólafsvík og Ólafsfirði eða láta Hellisheiðina ná niður að Rauðavatni.

Þegar ég stjórnaði Videókerfinu í Borganesi og það varð nokkuð frægt rak ég mig oft á það hve blaðamenn eru illa að sér um ýmsa algenga hluti. Rugla því saman sem hægt er og manni finnst eðlilegt að allir viti og búa til staðreyndir út og suður. Mér fannst þetta batna um tíma en er að versna aftur. Aðallega held ég að þetta sé vegna þess að yfirlestur annarra aðila á fréttum er að mestu að leggjast af á fjölmiðlum.

Harpa er einnig búin að birta grein á blogginu sínu sem hún hefur sent Skessuhorni til birtingar. Hún ætlar ekki að láta bæjarstjórann eiga neitt inni hjá sér og biður hann að standa við orð sín eða biðja sig opinberlega afsökunar. Hann hafði í frammi meiðandi ummæli um hana í viðtali við Skessuhorn. Fróðlegt verður að sjá hvernig bæjarstjórinn reynir að snúa sig útúr þessu. Hann hefði betur haldið sér saman.

Nokkru eftir að Sævar Ciesielski gaf út bók sína árið 1997 sem var í raun greinargerð hans með beiðninni um endurupptöku Geirfinnsmálsins hafði hann samband við mig útaf því að hann var að hugsa um að gera bókina líka aðgengilega öllum á netinu. Ég var þá nýbyrjaður á Netútgáfunni ásamt börnum mínum og hafði auðvitað hug á að gera veg hennar sem allra mestan. Sævar hafði engan áhuga á að græða á bókarskrifunum og við hittumst nokkrum sinnum til að ræða þetta mál. Ekkert varð þó úr þessu og var helst að skilja á Sævari að hann ætlaði sjálfur að setja bókina á netið.

Mér kom þetta í hug núna þegar Guðmundar og Geirfinnsmálin eru komin til umræðu einu sinni enn. Ég reyndi um daginn að skrifa undir áskorun um endurupptökju Geirfinnsmálsins á fésbókinni, en ég held að það hafi mistekist hjá mér.

Veðrið er nú eiginlega þannig að ekki tekur því að vera að blogga mikið. Hver nennir að vera að lesa blogg þegar sólin skín og svona heitt er í veðri?

IMG 6097Við rjómabúið á Baugsstöðum.


Bloggfærslur 21. júlí 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband