1418 - Páll Baldvin kærður?

Untitled Scanned 48Gamla myndin.
Þetta sýnist mér vera minnisvarðinn um Stephan G.

Fjölmiðlar hafa mikið yndi af alls konar könnunum og rannsóknum. Sumt er þar ákaflega óvísindalegt og oft hlægilegt mjög. T.d. man ég eftir að í frétt um nýlega rannsókn sem ég af einhverjum ástæðum las, aldrei slíku vant, kom fram að konur tali 28% meira en karlar. Þetta finnst mér mjög trúlegt. Þær hljóta þá að koma frá sér a.m.k. 28% meiri speki en aðrir.

Heldur virðist vera að hitna í kolunum varðandi Sögu Akraness. Sagt er að bæjarstjórinn á Akranesi ætli fyrir hönd Gunnlaugs Haraldssonar, höfundar verksins, að kæra ritdóm Páls Baldvins Baldvinssonar í Fréttatímanum um síðustu helgi. Ég hef bloggað um þetta mál nokkrum sinnum og ætla ekki að endurtaka það, sem ég hef áður sagt. Ég fylgdist vel með skrifum Hörpu Hreinsdóttur um bókina á sínum tíma, fékk lánað eintak af öðru bindinu hér á bókasafninu og er af ýmsum ástæðum e.t.v. vilhallur í þessu máli. Oft hafa menn verið ósáttir við bókadóma en ekki man ég eftir kærumálum út af slíku. Páll er vissulega orðhákur hinn mesti, en ég á ekki von á að hann verði í neinum vandræðum með að verja sig í þessu máli.

Í Skessuhorni á vefnum er eftirfarandi klausa höfð eftir bæjarstjóranum á Akranesi:

„Í þessum skrifum Páls er nefnilega ekki snefill af fræðimennsku en hellingur af fúlmennsku og dágóður slatti af lítilmennsku líka. Mér sýnist Páll af einhverjum óskýrðum ástæðum hafa ákveðið að éta gagnrýnislaust upp þruglið sem bloggari einn hér í kaupstaðnum hefur staðið fyrir linnulítið undanfarnar vikur. Þetta er því alls ekki ritdómur heldur skítkast sem lýsir mjög litlum metnaði en allt of mikilli sjálfsánægju og mjög miklum hroka, yfirlæti og lítilsvirðingu og ekki aðeins gagnvart höfundi sögunnar, ritnefnd og útgefanda, heldur gagnvart öllum Akurnesingum,“

Þetta finnst mér vera ærumeiðingar sem Harpa Hreinsdóttir á greinilega að taka til sín. Ég get ekki séð að þessu máli sé lokið.

Grunar samt fastlega að Páll hafi lesið umfjöllun Hörpu Hreinsdóttur um verkið og hyggist styðjast við margt af því sem hún hefur kannað vandlega. Hversvegna er ekki Harpa kærð? Bæjarstjórnin virðist hafa gert ráð fyrir að geta hundsað blogg, en ekki prentað mál. Er greinilega haldin sömu fordómum gagnvart bloggi og margir aðrir.

Dómstólar landsins (og dómarar þar með) eru greinilega líka fordómafullir mjög. Halda greinilega að allt hljóti að vera í lagi ef lagatæknin og útúrsnúningarnir eru það. Dæma t.d. Erlu Hlynsdóttur hiklaust í sekt þó hún hafi einungis sem blaðamaður haft orðrétt eftir öðrum. Til hvers eru ritstjórar eiginlega og hvers eiga prentuð blöð að gjalda þegar allt virðist vera leyfilegt ef um rafræna dreifingu er að ræða? Þetta eru greinilega fordómar hinir verstu þó hægt sé líklega að vefja um þá lagarökum.

IMG 6050Héðan koma víst ORA-baunirnar.

 


Bloggfærslur 15. júlí 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband