1399 - Runólfur Ólafsson (ekki minnst á hann hér)

006Gamla myndin.
Þetta er Hörður Haraldsson sem kenndi okkur þýsku og hagfræði á Bifröst. Þar að auki var hann landsfrægur spretthlaupari. Myndin er líklega tekin í gönguferð á Baulu.

Sko, það er fremur auðvelt að næla sér í fáein komment. Ekki þurfti annað en að skíra færsluna í gær dálítið kryptísku nafni. Auðvitað hefði ég getað sett það í færsluna sjálfa að það væri mynd af Jóni Sigurðssyni sem væri á fimmhundruðkallinum. Hitt er svo enn kryptískara með bílinn í lok færslunnar og litinn á honum. Hann lenti samt þarna fyrir eintóma tilviljun. Væri ég nægilega hjátrúarfullur héldi ég auðvitað að Jón Sigurðsson hefði sjálfur staðið fyrir þeirri tilviljun.

Því er stundum haldið fram að Ísland sé á mörkum hins byggilega heims. Þetta er alveg rétt og sjaldan sér maður það betur en þegar sólin er álíka hátt á lofti þegar maður vaknar eins og þegar maður fer að sofa. Skín bara úr svolítið annarri átt. Líka má auðvitað sjá þetta í svartasta skammdeginu þegar varla birtir um hádaginn. Annars er mér sléttsama um allt sólskin, eða það finnst mér. Mætti samt að skaðlausu vera svolítið hlýrra. Finn það vel þegar ég fer illa klæddur út að ganga á morgnana hvað það væri miklu betra. Annars er aðalmunurinn á göngustígunum hér og á Tenerife að þar eru allskonar aumingjar en hér aðallega hundaviðrunarfólk og skokkarar.

Að mörgu leyti er stjórnlagaráðið að taka hér völdin. Vinsældir þess aukast stöðugt. Ríkisstjórnin er trausti rúin. Varla að stjórnarandstaðan þori að anda á stjórnlagaráðið. Takist þeim að koma saman einhverju boðlegu eru mestar líkur á að það verði samþykkt. Hvort það breytir svo einhverju varðandi pólitíkina á eftir að koma í ljós. Pólitíkusarnir einbeita sér þessa dagana að kvótanum og í gegnum SA og ASÍ telur stjórnarandstaðan sig hafa náð einhverju taki á ríkisstjórninni útaf vegamálum. Svo er þó ekki. Ömmi og félagar eru afsleppari en svo.

Sagt er að dragi úr bensínsölu. Þessu get ég vel trúað. Sjálfur er ég farinn að keyra minna en ég gerði. Auðveldasti sparnaður í heimi er að minnka svolítið óþarfa akstur og keyra ögn sparlegar en áður. Þ.e. gefa heldur minna inn þegar farið er af stað eða hraðinn aukinn. Horfa jafnvel meira á snúningshraðamælinn en hraðamælinn sjálfan. Ef bensínverðið er nógu hátt verður sparnaðurinn þeim mun meiri. O.K., ég veit að þetta síðasta er vafasöm hagfræði en gat bara ekki stillt mig.

Mesta spennan þessa dagana er um það hvenær næsta þjóðaratkvæðagreiðsla eða almennu kosningar verða. Samkvæmt Guðs og manna lögum (eða réttara sagt gömlu stjórnarskránni) ættu næstu alþingiskosningar að verða árið 2013. Ætli það verði samt ekki næsta spenna í þessu sambandi að vita hvort Ólafur ætli að bjóða sig fram einu sinni enn til forseta eða ekki og hvort einhver þorir á móti honum ef hann býður sig fram. Svo má auðvitað búast við þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs og ESB er einhvers staðar út við sjóndeildarhringinn. Semsagt nóg að gera á næstunni en þó verður eitthvert hlé í sumar. Best að njóta þess og vera ekki að þessu eilífa sífri sem einkennir stjórnmálaumræðuna í dag.

IMG 5793Nú, mega þá ekki einu sinni fatlaðir leggja hér?


Bloggfærslur 22. júní 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband