1397 - Sæmundur Sigfússon

003Þetta er Bakkasel á Öxnadalsheiði. Á þessum tíma var þrefað um þann bæ fram og aftur á alþingi og hann öðlaðist talsverða frægð fyrir vikið.

Í þjóðsögum er nafni minn Sigfússon oft nefndur. Engin furða er það því hann hefur áreiðanlega verið fyrirferðarmikill í íslensku þjóðlífi á sínum tíma. Um slíka menn myndast gjarnan þjóðsögur.

Tveimur sögum um hann ætla ég að tæpa á hér.

Sæmundur var eins og flestum er kunnugt sagður vera galdramaður mikill. Í vinnu hjá honum var líka sagt að væru galdarkindur ýmiss konar. Einhverntíma á heyskapartíð var mikið hey flatt í Odda og leit út fyrir rigningu. Vinnumenn hömuðust við að setja heyið í sátur og kerling ein gekk um og snerti sáturnar með stafpriki sínu og sagði um leið: „Upp í garð til Sæmundar.“ Og ekki er að orðlengja það að sáturnar tókust á loft og svifu heim í hlöðu (sem kannski hefur ekki verið merkileg hlaða) til Sæmundar þar sem hann hamaðist við að koma þeim fyrir. Hann sá fljótlega að hann mundi alls ekki hafa við og kallaði því á Kölska og lét hann ásamt árum sínum hjálpa sér. Þannig bjargaðist heyið.

Hin sagan er þannig að einhvern tíma er sagt að Sæmundur hafi komið heim frá gegninum og í baðstofu hafi verið vinnukonur margar við tóvinnu. Sæmundur sagði um leið og hann snaraðist inn að nú væri óskastund og þær gætu óskað sér einhvers ef þær væru nógu fljótar. Þá gall við í einni:

„Eina vildi ég eiga mér
óskina svo góða.
Að ég ætti synina sjö
með Sæmundi hinum fróða.“

„Og dæir þegar þú eignaðist þann sjöunda.“ Bætti Sæmundur við. Allt er þetta sagt hafa ræst eins og venjulegast er í munnmælum að þessu tagi. Meira að segja er til saga um að allir þessir synir hafi orðið prestar en hana kann ég ekki.

Mér finnst ekkert óeðlilegt við að skipta fólki í flokka eða hópa sér til hægðarauka. Mér finnst flokkaskiptingin Íslendingar vs. útlendingar eða hvítt fólk vs. litað þó vera óeðlileg skipting. Sjálfur skipti ég fólki oft með sjálfum mér þannig í hópa:

Karlar vs. konur.
hægri vs. vinstri.
opingáttarfólk vs. einangrunarsinnar.
frakkamenn vs. úlpumenn.
hundafólk vs. kattafólk.
o.s.frv. Þannig væri hægt að halda lengi áfram.

Þessi skipting finnst mér alveg eðlileg en ef ég ætti að útskýra út hörgul hvað þessi skipting þýðir og hvernig hún hefur komist á þá mundi það taka langan tíma og alls ekki er víst að allir yrðu sammála mér. Dilkadráttur af þessu tagi er alltaf vafasamur því auk alls annars þá er sífelldur þeytingur á fólki milli flokka.

IMG 5789Gluggar þvegnir.


Bloggfærslur 20. júní 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband