1395 - Gamlar myndir

001Gamla myndin.
Þessi mynd er líklega tekin á sjómannadaginn hér í Laugardalnum. Þetta var á sínum tíma kallað „stakkasund“ og var nokkuð vinsælt.

Já, það er talsverð fyrirhöfn að skanna myndir. Hef samt skannað nokkrar gamlar myndir og ætti ekki að verða uppiskroppa á næstunni. Sumar af myndunum hef ég áreiðanlega tekið sjálfur en ekki allar. Eitthvað hef ég líka birt áður á blogginu mínu af gömlum myndum. Þær ættu að vera aðgengilegar í albúmunum hér á Moggablogginu. Nýlegu myndirnar er auðvitað líka nokkur fyrirhöfn að undirbúa fyrir birtingu hér á blogginu en ég er orðinn svo vanur því að mig munar lítið um það. Að birta eina gamla mynd og eina nýja á hverjum degi er samt talsverður handleggur.

Þau tvö dómsmál sem hæst ber um þessar mundir eru tvímælalaust málaferlin gegn Geir Hilmari Haarde fyrir landsdómi og kæra Gunnlaugs M. Sigmundssonar gegn Teiti Atlasyni útaf umfjöllun hans um Kögunarmálið svokallaða. Ég ætla að fjalla svolítið um bæði þessi mál. Þ.e. hvernig þau horfa við mér.

Mér finnst Geir Haarde vera sekur um það sem hann er sakaður um. Vel má halda því fram að óheppilegt sé að hann skuli einn vera fyrir landsdómi. Það á þó ekki að hafa áhrif á niðurstöðu dómsins. Hvað málalok snertir skiptir í raun engu hvort aðrir eru ákærðir jafnframt. Sekt eða sakleysi hans er nákvæmlega jafnmikil hvort heldur sem er. Málshöfðunin er að því leyti pólitísk að alþingi ákærir í málinu. Ekki er hægt að halda því fram að niðurstaða landsdómsins verði pólitísk af því einu. Engin ástæða er til að ætla að dómarar þeir sem skipa landsdóminn láti annað en lögin ákveða sekt eða sýknu.

Kem ég þá að Kögunarmálinu. Mér er með öllu óskiljanlegt hvers vegna Gunnlaugur kærir í því máli. Upprifjunin á málsatvikum er öll Gunnlaugi í óhag. Þetta er ljótt mál og mér er í fersku minni þegar það var sem mest í umfjöllun fjölmiðla. Hlutur Gunnlaugs hefur fremur versnað en hitt með árunum. Þó hann hafi sloppið við refsingu á sínum tíma er nær öruggt að mál þetta mundi fá aðra meðferð ef það kæmi til meðferðar dómstóla nú. Reyndar er óljóst hvað það er nákvæmlega sem Gunnlaugur kærir Teit fyrir og málsaðilar virðast hafa lítinn áhuga á að ræða það. Eftir stendur að ómögulegt er að Gunnlaugur græði annað á þessu máli en mögulega að valda Teiti umtalsverðum útgjöldum og fyrirhöfn.

Rætt er um hundabann í sambandi við hátíðahöld. Ég er frekar á móti hundum en með köttum. Þetta er bara eitthvað sem fólki er meðfætt held ég. Auðvitað fara engir með köttinn sinn niður í bæ á 17. júní enda vilja kettir ekki vera í bandi. Hundaeigendur flestir halda að sinn hundur geri aldrei flugu mein. En hver á að dæma um hvort hundur er hættulegur eða ekki? Ég vil láta þá sem hræddir eru við hunda gera það.

IMG 5785Allt er vænt sem vel er grænt.


Bloggfærslur 18. júní 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband