17.6.2011 | 00:18
1394 - Plankablogg

Á sínum tíma var sundlaugin í Laugaskarði eina 50 metra sundlaug landsins. Þangað komu því stundum bestu sundmenn á landinu til æfinga. Ég var þá unglingur að prófa mig áfram með ljósmyndun og tók meðal annars þessa mynd af Pétri Kristjánssyni sem lengi hafði verið einn besti sundmaður landsins og Guðmundi Gíslasyni sem þá var ungur og upprennandi sundmaður.
Ég hef líka verið beðinn um að pósta hér gamlar myndir frá Bifröst. Þær eru alveg orðnar nógu gamlar til að kallast gamlar. Eitthvað á ég af slíku. Fann t.d. eina fótboltamynd frá Bifrastarárunum. Hér má sjá ef talið er frá vinstri: Ögmund Einarsson, Gunnlaug Sigvaldason, Sigurjón Guðbjörnsson, Gunnar Hallgrímsson og Sæmund Bjarnason.
Þetta er ekkert þjóðhátíðarblogg. Frekar mætti kalla það plankablogg. Mér finnst þetta allt hafa byrjað með því að einhver ástrali plankaði sig til dauða. Svo plankaði Sigmar sig í Kastljósinu og Guðni Ágústsson á stól, (ekki mjög frumlegt) þá var það sem Björn S. Lárusson plankaði sig á kústskafti (sneri myndinni). Nú er röðin komin að mér og ég plankaði í einrúmi (enginn til frásagnar). Síðasttalda aðferðin er langbest. Ég hef að vísu ekki prófað hinar en þær eru áreiðanlega ekki auðveldari.
Í gær var ég skammaður í athugasemdakerfinu fyrir að ráðast á biskupinn. Ég hef alla tíð verið lítið hallur undir kirkjuleg yfirvöld. Talið presta í mesta lagi vera ósköp venjulegt fólk. Að ríkið sé að skipta sér af því hvernig fólk iðkar sína trú finnst mér óhæfa hin mesta. Auðvitað veit ég að trúin hefur hjálpað mörgum til að sætta sig við hlutskipti sitt í lífinu og átt sinn þátt í menningu þjóðarinnar. En í æðstu stöður þjóðkirkjunnar hafa stundum safnast þeir sem lítið vilja fyrir lífinu hafa, annað en að níðast á náunganum.
Mér finnst ég ekki hafa komið neitt illa fram við Karl biskup og þeir sem svo hugsa gera líklega allt of mikið úr mínu bloggi. Í því eru mínar hugsanir eingöngu og ekki annarra. Aðrir geta síðan ef þeir vilja komið sínum skoðunum á framfæri í athugasemdunum ef þær stangast á við mínar. Nú eða sleppt því bara eins og einfaldast er og flestir gera.
Athugasemd Sigurbjörns Gíslasonar fagna ég þó mjög. Það er alltof sjaldan sem ég fæ gagnrýni af þessu tagi á mín skrif. Í þessu tiltekna máli er ég samt þeirrar skoðunar að rétt sé að láta ekki við það sitja að biðjast fyrirgefningar (sem þó er engin fyrirgefningarbón) heldur þurfi kirkjan á því að halda að hreinsa til í sínum ranni.
Nú er ég að verða búinn með bókina um Steinólf í Ytra-Fagranesi. Ekki er víst að ég klári hana. Satt að segja verður hún lakari eftir því sem lengra dregur. Seinni hluti hennar allur er nokkurskonar safn af anekdótum sem sögumaður hefur sagt höfundi. Engin tilraun er gerð til að tengja þær saman. Satt að segja fær maður á tilfinninguna að báðir færi nokkuð í stílinn eins og sagt er eða ýki frásögnina. Slíku er maður þó svo vanur að ástæðulaust er að kippa sér upp við það. Lakara er að höfundur fyrnir mál sitt sem mest hann má og velur anekdóturnar stundum fremur illa að mínu áliti og jafnvel með það eitt að markmiði að koma einstökum vel fyrndum málblómum að.
Stjórnlagaráð það sem nú er að fást við að koma saman drögum að stjórnarskrá er einhver merkasta tilraun til slíks sem gerð hefur verið á Íslandi. Ekki er ég viss um að margir fylgist með störfum þess á netinu en þegar þar að kemur og endanlegur texti nýrrar stjórnarskrár verður gerður opinber fara fjölmiðlar og stjórnmálamenn ugglaust að rífa hann í sig lið fyrir lið. Kjósendur á landinu fá þó vonandi að segja álit sitt á honum áður en alþingismenn fara að krukka í hann. Satt að segja hef ég þá trú á núverandi stjórnvöldum að þau muni reyna að stuðla að því að kjósendur geti það sem fyrst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)