1350 - Sumarið er komið

GudmundurBjarna KiddiAntonsGamla myndin
er frá Kalla Jóhanns. Mér er sagt að hér séu á ferðinni Guðmundur Bjarnason og Kristinn Antonsson. Það getur vel passað. Kalli Jóhanns telur að myndin sé líklega tekin við skálann í Reykjadal. Það finnst mér ótrúlegt. Líklegra er að hér sé um að ræða skála við Skarðsmýrarfjall í eigu Skátafélags Reykjavíkur.

Nú er sumarið loksins komið. Snjórinn sem kom um daginn flýtir sér burtu. Vormenn Íslands flýta sér líka eins og þeir geta að drepa þá ísbirni sem flækjast hingað. Aumingjaskap okkar Íslendinga verður allt að vopni. Ekki hefði ísbjarnarræfillinn getað tekið land á afskekktari stað. Auðvelt hefði verið að fylgjast með honum og koma honum í burtu en útgjöld hefði það þýtt og ef lögregla og stjórnvöld gæta ekki peninganna vel þá verður ekki betur séð en þau álíti sig óþörf með öllu. Megi reiði allra góðra vætta einbeita sér að því ólánsfólki sem ákvörðun tók um þetta dráp.

Almennt séð hafa ísbjarnadráp, hvalveiðar og hundaát ekkert með skynsemi að gera. Þar eru það tilfinningar sem mestu ráða. Það er engin minnkun fólgin í því að hræðast þá neikvæðu auglýsingu sem nýjasta ísbjarnardrápið færir okkur Íslendingum.

Mér er enn í fersku minni sú sturlun sem virtist grípa um sig meðal allrar þjóðarinnar þegar varðskipið íslenska hóf skothríð sína á togarann Everton eitt sinn í einhverju af þeim þorskastríðum sem við háðum við Breta á síðustu öld. Man vel þann hrylling sem greip mig. Ég sá í hendi mér hve auðvelt er að æsa heilu þjóðirnar til óhæfuverka og efna til styrjalda við saklaust fólk. Sem betur fór voru bresk stjórnvöld í það skipti viti bornari en þau íslensku og óhæfuverkum  tókst að komast hjá.

Margir hafa orð á því hve illa landinu sé stjórnað. Það má til sanns vegar færa að sé rétt. Landinu er afar illa stjórnað ef aðeins er horft til ákveðinna einstaklinga hverju sinni. Ef stjórn landsins væri miðuð við einn einstakling í senn væri einfalt að bæta stjórnunina. Gallinn er bara sá að nauðsynlegt er að stjórna landinu í  samræmi við þarfir og óskir sem flestra. Þetta er erfitt og alls ekki alltaf gott að sjá hverra hagsmuni ber að hafa að leiðarljósi. Svo má auðvitað oft velta fyrir sér hvaða öðruvísi stjórnarfar er í boði. Þá erum við að vísu undireins komin að pólitísku mati sem öllu mati verra.

Auðvitað er það svo að þeir sem oft kommenta hér á bloggið verða manni kærari en aðrir. Mér finnst stundum að ég sé einkum að skrifa fyrir Óskar Þorkelsson og Sigurð Hreiðar. Ekki má heldur gleyma Ellismelli eða Hörpu Hreins sem að vísu er næstum skyld mér. Þau hafa bæði lengi kommentað hér. Sumir ættingjar mínir, bekkjarfélagar og jafnvel fleiri veit ég að lesa bloggið mitt reglulega og yfirleitt án þess að kommenta. Mér finnst oft að ég sé að skrifa fyrir þá líka. Suma gleymi ég að nefna enda er alltaf tvíbent að nefna nöfn. Ólafur Sveinsson og Jóhannes Finnur koma mér t.d. í hug.

Ekki er fésbókinni alls varnað. Gegnum hana komst ég í kynni við Kalla Jóhanns á ný. Það er nokkuð eftirminnilegur kafli úr mínu lífi þegar ég kynntist honum sem best. Það var þegar ég var með frímerkjadelluna og hún heltók mig af sem mestum krafti. Þá stofnuðum við frímerkjaklúbbinn Sjöstirnið. Ég man auðvitað best eftir Kalla í því sambandi en eflaust höfum við verið fleiri. T.d. gæti Jósef Skafta sem best hafa verið þarna líka og e.t.v. sömuleiðis Siggi í Fagrahvammi og Mári Mikk.

Söfnunaráráttan heltók okkur á þessum tíma og ég er ekki frá því að ég hafi annaðhvort verið formaður eða ritari þessa ágæta félags. A.m.k. man ég eftir að í mínum fórum voru árum saman heilmörg bréf sem við fengum frá Svíþjóð. Þau voru stíluð á Sjöstirninö (Svíarnir skildu ekki og áttu ekki ð) og báru með sér að minnst hefði verið á klúbbinn í sænsku frímerkjablaði (líklega fyrir tilverknað Kalla). Ekkert var gert með þessi bréf og klúbburinn dó drottni sínum fljótlega.

Mér finnst ég þurfa að koma mínum mjög svo alþjóðlegu (finnst mér sjálfum) stjórnmálasjónarmiðum að í mínu bloggi. Það er samt mun meira gaman að einbeita sér að gamla tímanum og minningum þaðan. Kannski er ég líka betur til þess fallinn þó sumir séu hissa á því að ég skuli einn hafa gengið fram fyrir bloggsköldinn af mínum bekkjarfélögum (eða jafnvel skólafélögum flestum eða öllum) Sjálfum finnst mér það samfélag sem ég ólst upp við í Hveragerði í upphafi kaldastríðsáranna vera það merkilegasta sem um getur.

Mogginn gerir grín að Söru Palin. Hún vildi víst þakka Bush forseta drápið á Ósómanum. Hvar endar þetta eiginlega. Obama gerir grín að Trump og Mogginn gerir grín að Palin. Ætli Obama verði ekki bara endurkjörinn á næsta ári. Endurkjör er eiginlega reglan í Bandaríkjunum. Jafnvel Bush var endurkjörinn.

Það eru eiginlega tvö pólitísk dogmu sem ég er áskrifandi að. Annað er það að allir séu í rauninni annaðhvort opingáttarmenn eða einangrunarsinnar. Hitt er það að fólk sé fífl. Um bæði má skrifa langt mál. Mig minnir að ég sé nýbúinn að minnast eitthvað á einangrunarsinnana, sem ég þykist ekki tilheyra. Lengra er hugsanlega síðan ég hef skrifað um hitt. Ég styð ekki þá skoðun að fólk sé fífl. Margir stjórnmálamenn virðast samt gera ráð fyrir því að almennt séu kjósendur afskaplega heimskir og fáfróðir. Miklu nær finnst mér að gera ráð fyrir að almenningur sé a.m.k. jafngáfaður manni sjálfum. Erfitt er það vissulega en margt verður ljósara ef ráð er gert fyrir þessu.

IMG 5388Rætur vorsins.


Bloggfærslur 4. maí 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband