26.5.2011 | 00:18
1372 - Jónasast í flaginu
Gamla myndin.
Gömul íþróttamynd. Líklega er það Ólafur Unnsteinsson sem er lengst til hægri á myndinni. Aðra þekki ég ekki. Ætli myndin sé ekki tekin á Þjórsártúni.
Jónas Kristjánsson fyrrverandi ritstjóri lætur drýgindalega yfir því að hann hafi aldrei lært á tölvu. Mér finnst mun líklegra en ekki að Jónas hafi einhverntíma þurft að spyrja um tölvumál eða lesa sér til um þau. Hvort hann hefur lært eitthvað á því veit ég auðvitað ekki. Ég hef aldrei lært neitt um tölvur þ.e.a.s. í skóla eða á opinberu námskeiði. En komist að ýmsu samt.
Jú, ég minnist þess reyndar að hafa einu sinni farið á Excel-námskeið fyrir löngu. Það stóð í nokkra klukkutíma. Síðan hafa margar nýjar útgáfur af Excel komið fram og ég er búinn að gleyma flestu sem ég lærði þar en hef þó einhverja hugmynd um hvað hægt er að gera.
Makka vs. PC stríðinu er lokið. Það vildi svo til að ég varð PC-maður en ekki Makka á sínum tíma. Ég minnist þess að á upphafsárum Stöðvar 2 bað Jón Óttar mig eitt sinn að ná í skjal sem hann hafði verið að skrifa á Makkann sinn. Ég hafði þá aldrei séð Makka fyrr en tókst samt að ná skjalinu. Af þessu dró ég þá ályktun að Makkinn væri á þeim tíma vinsamlegri byrjendum en PC-tölvur. (Reyndar voru Wang-tölvur með sérstöku stýrikerfi notaðar upphaflega á Stöð 2)
Það er ekki nóg með að Einar Kárason hvetji til eiturlyfjaneyslu (mín túlkun - sjá bloggið í gær) heldur hefur hann legið marflatur (eins og fleiri) fyrir frekjunni í Davíð Oddssyni ef marka má það sem hann segir frá í bókinni Mér er skemmt" þar sem hann ræðir um félagsmálastörf sín. Ég tek a.m.k. þannig það sem hann segir um styrk Kvikmyndasjóðs til Hrafns Gunnlaugssonar.
Mér er .. Mér er skemmt. Í djammið nú ég hef mér dembt". Nafnið á bókinni minnir mig á vísur sem Ómar Ragnarsson söng eitt sinn fyrir ævalöngu. Kannski á það að vera þannig. Þó ég sé dálítið gagnrýninn á Einar Kárason (bæði í dag og í gær) get ég auðvitað ekki neitað því að hann skrifar skemmtilega og er ágætur sálfræðingur.
Stjórnmáladeilur í bloggathugasemdum eru oft hvorki fugl né fiskur og enda oft ansi fésbókarlega. Við því er lítið að gera. Sigurður Hreiðar er líklega talsvert hægri sinnaðri í stjórnmálaskoðunum en ég. Eftir athugasemdum að dæma sem frá honum komu í gær virðist hann telja töluverða hættu á því að hið beina lýðræði sem oft er talað um geti hæglega þróast í skrílræði sem gæti orðið mun verra en þingræði það sem við teljum okkur hingað til hafa búið við.
Orðaleppar geta verið æði misvísandi. Þannig er því varið með hið svokallaða beina lýðræði þar sem allir eiga að ráða jafnmiklu. Það hugtak er ofnotað og alls ekki víst að það bæti nokkuð þegar á hólminn er komið að kjósa sem oftast og um sem flesta hluti.
Einhverskonar bremsur verður þó að setja á ráðandi öfl. Málskotsréttur forseta landsins hefur alls ekki reynst neitt sérstaklega illa. Hlutverk hans er þó illa skilgreint í núverandi stjórnarskrá og alls ekki nógu ljóst hvert það á að vera. Núverandi forseti hefur tekið sér vald sem þeir forsetar sem við völd voru á undan honum töldu sig ekki hafa.
Þörfin fyrir nýja stjórnarskrá er ekki óumdeild. Það hvort tillögur þess stjórnarskrárráðs sem nú situr (komi það sér saman um eitthvað slíkt) fari beint í þjóðaratkvæðagreiðslu eða Alþingi fjalli fyrst um þær er grundvallaratriði. Líka hvernig þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu verður hagað ef af verður.
Það er of ódýrt að segja bara að það sé lýðskrum að halda því fram að lýðræðið þurfi að auka. Mikið lýðskrum var stundað þegar sambandsslitin við Danmörku voru samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu á sínum tíma. Þó er það óumdeilt að sú var skoðun þjóðarinnar. Það er líka óumdeilt að það var vilji þjóðarinnar að hafna Icesave-frumvarpinu fyrir skemmstu. Mér finnst ekki lýðskrum að halda því fram að Hrunið stafi af kerfisvillu öðrum þræði. Að kerfið lagist með því að hafa nógu auðvelt að krefast þjóðaratkvæðagreiðslu er þó alls ekki víst. Það getur beinlínis verið hættulegt að hafa það of auðvelt.
Baráttan um aðildina að ESB er að harðna. Stofnuð hafa verið samtök vinstri manna gegn henni og nefnast þau Vinstrivaktin og er að finna á Moggablogginu undir vinstrivaktin.blog.is.
Þar er að finna greinar um þessi mál eftir ýmsa í samtökunum. Ég hef ekki lesið allt sem þar er skrifað en hygg að ég sé ekki sammála öllu sem þar er sagt. Nánar seinna.
Eitt er það slagorð sem mér finnst leiðinlegra en öll önnur. Það er slagorðið segðu bless við blettina" Ekki veit ég fyllilega af hverju það er og mig langar ekkert að vita það. Ég reyni að hugga mig við að svo oft megi spila auglýsingar að þær fari að vinna gegn upphaflegum tilgangi sínum. Það er samt ekkert víst að svo sé.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)