25.5.2011 | 00:06
1371 - Stefán Pálssson og fésbókin
Gamla myndin.
Þessi mynd er tekin á Barnaskólatúninu (held ég). Netið í markinu er ekki mjög heillegt en fleira verður að nota en gott þykir. Líklega er þetta einhvers konar unglingalið, eða jafnvel ógiftir og ólofaðir, en siður var um langt skeið að slíkt lið var myndað á 17. júní til að kljást við þá giftu og lofuðu. Ýmsa þekki ég þarna en ekki alla. Þarna sýnast mér vera í aftari röð talið frá vinstri: Örn Jóhannsson, Mummi Bjarna, Maggi Rokk, Kiddi Antons, Maggi Karls, Elli Sigurþórs. Fremri röð frá vinstri: Már Michelsen (vafasamt), veit ekki, ég sjálfur, Reynir Pálsson, veit ekki. (Finnst þó endilega að þessi heiti líka Reynir en veit engin nánari skil á honum.)
Þegar ég tefldi svolítið á vegum Taflfélags Reykjavíkur forðum daga lentu hæfileikamenn þar stundum í því að verða briddsinum að bráð. Man t.d. vel eftir Jóni Baldurssyni, hann þótti hæfileikaríkur skákmaður en lenti í spilunum og hætti að mestu að tefla.
Stefán Pálsson sem forðum daga bloggaði sem mest og þóttist vera besti bloggari landsins og var það að sumu leyti, er eiginlega hættur að blogga og varð fésbókinni að bráð. Svipað má segja um Sigurð Þór Guðjónsson. Hann hefur meira að segja haldið því fram að sér leiðist að blogga en fésbókin sé afburðaskemmtileg. Sem er auðvitað tómt rugl.
Stefán Pálsson er eins og flestir vita Vinstri-grænn og starfar mikið fyrir þann flokk en hefur samt ekki náð frama þar frekar en Ómar Ragnarsson innan Samfylkingarinnar.
Stefán skrifar oft í Smuguna og greinar hans eru yfirleitt ágætar. Nýjasta greinin sem ég hef séð eftir hann heitir Ógnir fésbókarinnar" og þar gerir hann á sinn hátt upp við bloggið en er samt engan veginn sáttur við fésbókina. Það sem hann finnur henni helst til foráttu er símskeytastíllinn. Fólk er sífellt að svamla í yfirborðinu og í samræmi við hinn engilsaxneska tíðaranda sem hér ríður húsum er mest áherslan á rammandi one-liners".
Þetta er alveg rétt hjá Stefáni. Þó fésbókin sé til margra hluta nytsamleg er hún tímaþjófur hinn mesti. Þar virðist allt þurfa að ganga sem hraðast fyrir sig og langar setningar eða málsgreinar eru illa séðar. Ábendingar eru þar oft ágætar samt en líka stundum ákaflega lítils virði. Samtölin oft hreint kaffibollaspjall og engan vegin fyrir óinnvígða. Mikið er einnig þar um húrrahróp og sleikjuhátt allskonar.
SMS-áhrifin leyna sér ekki. Ég hef engar sérstakar áhyggjur af SMS-málfarinu. Það er ósköp eðlilegt að þeir sem ekki geta án farsímanna sinna lifað reyni að spara þumalputtana svolítið. Það er þeirra mál að gera sig sem skiljanlegasta ef þeir vilja ná út fyrir eigin hóp.
Auðvitað er það mjög rangt að stilla blogginu og fésbókinni upp sem einhverjum óvinum. Fésbókarsótt fólks finnst mér þó vera ansi mikil. Nýjungagirnin er þar ráðandi afl og flestir vilja skipta bloggurum að sem mestu leyti í flokkspólitíska hópa. Margir eru búnir að fá leið á hruntengda svartagallsrausinu og kenna bloggurum um það. Lára Hanna er meira að segja að mestu hætt að blogga eftir að Eyjan tók að hampa henni og sama er segja um fleiri.
Nú er ég búinn að nefna þónokkur nöfn í þessu bloggi og það ætti að tryggja því talsverðan lestur. Að sem flestir lesi það sem maður skrifar er sennilega takmark flestra bloggara. Hægt er að beita ýmsum brögðum til að fá fólk til að lesa bloggin sín. Ég er nú tekinn að gamlast nokkuð en hef þó tekið sæmilega eftir um ævina. Pólitíkin fer í hringi. Sumt þar, eins og t.d. álitsleysið á stjórnmálamönnum, eykur þó hraðann í hringferðunum en annað síður.
Fleiri nöfn get ég nefnt. Er um þessar mundir að lesa bókina Mér er skemmt" eftir Einar Kárason. Las áðan kaflann Jólin á Hrauninu" en að mínu viti er Einar þar að glórífísera eða gylla á allan hátt eiturlyfjaneyslu hverskonar og lýsa sinni upplifun af þvílíku háttalagi. Skrifa kannski meira um þetta seinna en ég er hálfhneykslaður á honum þó ég viðurkenni hann sem einn af mínum uppáhaldshöfundum.
Í pólitíkinni virðist það nýjast að Mogginn (Doddson og Agnes) sé búinn að setja Steingrím af sem formann VG og reyni að fá menn til að rífast um hvort betra sé að Kata eða Svandís taki við af honum. Mitt álit er að endurnýjun á forystufólki sé að verða meira aðkallandi hjá Samfylkingunni. Er ekki Sigríður Ingibjörg Ingadóttir að verða áhrifakona þar?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)