18.5.2011 | 00:38
1364 - Frímerki
Gamla myndin
Hér er Bjössi spariklæddur inni í stofu.
Horfði á King´s speech" í gærkvöldi. Ágæt mynd. Karlfuglinn hann Georg fimmti safnaði bara frímerkjum en hafði áhuga á fáu öðru. Sem minnir mig á hve mögnuð frímerkjadellan hjá mér var einu sinni. Sem betur fer jafnaði ég mig smám saman á þeim sjúkdómi. Skákin var verri. Ég er svolítið illa haldinn af þeirri dellu ennþá.
Það var Kalli Jóhanns sem var félagi minn í andanum varðandi frímerkin. Annars var hann fyrst og fremst frímerkjakaupmaður. Var í sambandi við slíka út um allt. Líklega hjálpaði pabbi hans honum við það. Við stofnuðum samt frímerkjaklúbb nokkrir saman og mig minnir að ég hafi eitthvað sagt frá honum hér í blogginu um daginn. Mári Mikk var svo að selja frímerki fyrir Gísla Sigurbjörnsson a.m.k. stundum. Svo fór maður í bæinn öðru hvoru einkum til að kíkja í frímerkjaverslanir, sem voru nokkrar.
Svo var lýðveldið Ghana stofnað og ég man að ég keypti öll frímerki þaðan. Þau kostuðu ef ég man rétt heilar 900 krónur. Gæti best trúað að ég ætti þau enn einhvers staðar í drasli. Annars voru mestu vandræðin fólgin í því að takmarka sig á réttan hátt. Man að á þeim tíma sem ég var að byrja frímerkjasöfnun var gefið út svarta og græna stálstungumerkið með myndinni af Jónasi Hallgrímssyni en á þeim tíma var haldið uppá eitthvert afmæli hans. Keypti þónokkur stykki af því merki stimpluð á útgáfudegi en slík söfnun var í tísku þá.
Ég minnist þess að ég safnaði á tímabili frímerkjum sem gefin voru út eftir 1950 á öllum Norðurlöndunum. Átti það næstum komplett. Íslandi þó frá lýðveldisstofnun og það átti ég komplett bæði stimplað og óstimplað. Man að óstimpluðu merkin með myndinni af Jóni Sigurðssyni sem gefin voru út 1944 voru talsvert verðmikil. Svo gerði ég mörg tilhlaup að mótívsöfnun en var alltaf að skipta um skoðun á því hverju ég ætti að safna.
Annars gæti ég skrifað endalaust um frímerki en áhugi fyrir slíkri vitleysu er ekki mikill. Nú er búið að einkavæða þetta allt saman og ég er hættur að fylgjast með. Gerði það samt lengi vel. Var m.a. áskrifandi að nýjum merkjum á tímabili.
Sýnist að Google sé að reyna að yfirtaka allt cyber". Það er að mínum skilningi það sama og Microsoft hefur verið að reyna undanfarið. Apple hefur gert þetta og Yahoo sömuleiðis. Í rauninni er ég alltaf svolítið á verði gagnvart þessum stóru fyrirtækjum og ég veit að fleiri eru það. Þau skiptast ekkert í góð og vond fyrirtæki heldur vilja þau bara öllu ráða. Drepa jafnan þau minni ef þau mögulega geta og stunda það að kaupa hvort annað og fyrirtæki sem þeim finnst ógna sér. Það er það sama og við höfum séð vasaútgáfu af hér á landi. Fyrirtækin sinna samt sínum kúnnum ágætlega ef þau geta.
Fimmtíuogsex vikuinnlit virðist þurfa núna til að komast á lista yfir 400 vinsælustu bloggin hér á Moggablogginu. Minnist þess ekki að hafa séð lægri tölu þar. Moggabloggin eru greinilega ekki eins vinsæl og einu sinni var. Ég er samt ekkert á förum þaðan. A.m.k. ekki sjálfviljugur.
Mbl.is er þó talsvert lesinn fréttavefur ennþá sýnist mér. Veit ekkert um Morgunblaðið sjálft annað en að þeir eru að ég held enn að reyna að selja á netinu afurðir sínar. Ekki held ég að þeim takist það vel frekar en öðrum.
Netverjar virðast vera með þeim ósköpum gerðir að vilja fá allt ókeypis enda eru þeir vanastir því. Netaðganginn sjálfan þarf þó að borga fyrir en þeim finnst að þær upplýsingar sem þeim tekst að grafa uppúr ruslafrumskóginum þar eigi að vera ókeypis. Ég er alveg sammála þeim um það.
Sá prjónaskapur sem ég er bestur í er að prjóna við hendingar sem veltast um í hugskoti mínu. Fyrstu tvær ljóðlínurnar í eftirfarandi vísu hef ég áreiðanlega heyrt áður. Botninn er kannski ekkert afleitur. Ég læt vísuna allavega flakka:
Það ku vera fallegt í Kína.
Keisarns hallir þar skína.
En kvöl er það kannski og pína
að kveða burt sjálfsvitund sína.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)