1323 - Danke bitte schön

Á laugardaginn kemur verður þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave. Allir hljóta að vita þetta og allir eru uppfullir af því núna. Það er heldur ekki á hverjum degi sem svona hægt er taka þátt í svona mikilvægri kosningu.

Þeir sem bloggið mitt lesa reglulega vita sjálfsagt að ég er meðmæltur því að við segjum já við þeim samningi sem nú liggur fyrir. Mér finnst ég þó ekki þekkja þetta mál svo vel að ég geti verið með sérstakan áróður fyrir því. Get líka alveg skilið og metið afstöðu þeirra nei-manna þó mér finnist sumir þeirra vera alltof ofstækisfullir í þessu máli. Fjölyrði ekki meira um það.

Siðferðislega finnst mér að okkur beri skylda til að semja um þetta mál. Mér finnst líka að með því að fara svonefnda dómstólaleið sé enn og aftur verið að veðja á möguleika sem í besta falli eru jafnir. Útrásarvíkingarnir stunduðu þetta og lengi vel lukkaðist það ágætlega. Þvílíkt háttalag getur þó aldrei gengið til lengdar.

Það sem mér finnst skipta mestu máli í þessu Icesave-máli öllu er mismununin sem fólgin er í því að tryggja ekki með sama hætti innistæður í íslenskum útibúum og erlendum hjá sama bankanum.

Illt er að kenna gömlum hundi að sitja, segir máltækið. Ekki er líklegt að ég geti vanið mig af blogginu fyrirhafnarlaust. Reyni þó eins og ég get að stytta mál mitt og gera eitthvað annað.

Þýskan er mörgum hugleikin. Á Íslandi er löng hefð fyrir því að þýða „Spielen sie Kinder" með „Spilið þið kindur". Á Bifröst í gamla daga þýddum við „Der Tau viel stark" með „Táfýlan er sterk", en það er samt ekki rétt.

Ich veiss nicht was soll er bedeuten
dass ich so traurig bin.
Ein Maarchen von alten Seiten
es kommt mir nicht aus dem Sinn.

Svona er upphafið að Lorelei kvæðinu eftir Heine í mínum huga. Steingrímur Thorsteinsson þýddi þetta auðvitað snilldarlega með:

Ég veit ekki að hvers konar völdum
svo viknandi (dapur) ég er.
Ein saga frá umliðnum öldum
fer ei úr huga mér.

Í mínu minni kemur orðið dapur ekki fyrir í vísunni og þessvegna set ég það í sviga. Þegar ég fletti þessu upp á netinu var orðið þarna og þessvegna læt ég það fljóta með.

Annaðhvort í bókinni eftir Agnar Mykle sem Jóhannes úr Kötlum þýddi og kallaði „Frú Lúna í Snörunni" eða í sjálfum „Roðasteininum" er setning á þýsku sem af einhverjum ástæðum er blýföst í mínu minni.

„Das hat mich ein Vogel gesagt", segir einhver.

„Das hat mir ein Vogel gesagt", leiðréttir Askur Burlefot og síðan fylgja álnarlangar útskýringar á þýskri málfræði sem er ekki eitt af mínum áhugasviðum. 

„Sehr schön Bemerkung, nicht war?" og „Danke, bitte schön." sögðum við gjarnan í gamla daga og þóttumst voðalega menntaðir.

IMG 5376Hér er Bjarni í Guðríðarkirkju um daginn að ræða við ungu kynslóðina.


Bloggfærslur 8. apríl 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband