1339 - Um tófur og fleira

atliogjoiGamla myndin er
af Atla Stefáns og Jóa á Grund á góðri stund með vatn í flösku við skálann í Reykjadal. Þessa mynd hef ég birt áður á mínu bloggi ef ég man rétt. Góð vísa er samt aldrei of oft kveðin. Myndin er nokkuð góð þó hún sé hreint ekki einkennandi fyrir þessa tvo menn. 

Einn af fyrstu útvarpsþáttunum, þar sem hægt var að hringja inn, var þáttur sem Jón nokkur Gunnlaugsson stjórnaði. Þessi þáttur var á dagskránni eftir hádegið en ég man ekki hvað hann var kallaður. Hann var talsvert vinsæll og ég er viss um að margir kannast við hann. Minnir að Jón hafi hringt í fólk af handahófi og boðið því að velja lag eða eitthvað þess háttar.

Einu sinni hringdi maður einn í konu sína sem þá var í baði. Datt svo í hug að biðja Jón um að hringja í hana og þá sagði hann (Jón) m.a. eitthvað á þessa leið: „Hvað er að sjá þig kona. Ertu ekki búin að klæða þig?" Konunni brá víst heil ósköp. Þetta leiðir hugann að því að brandarar eru oft börn síns tíma. Nú þætti þetta ekki vitund fyndið. Brandarinn um Gunnar sem var með rámri röddu að bjóða tré og runna var líka bara fyndinn í smátíma.

Það er merkilegt rannsóknarefni að kynna sér hvaðan fólk hefur hugmyndir sínar. Hvaðan hef ég t.d. hugmyndir mínar um mannkynssöguna, frönsku stjórnarbyltinguna, Jörund hundadagakóng, Íslandssöguna, fornritin, eymd Íslendinga á liðnum öldum o.s.frv. Listinn er óendanlegur og auðvitað er ekki hægt að rannsaka allt. Samt byggjast stjórnmálaskoðanir og ýmsar aðrar skoðanir fólks að talsverðu leyti á þessum hugmyndum. Fyrir allmarga held ég að bloggið sé um þessar mundir einn helsti hugmyndavakinn og svo auðvitað árans fésbókin. Fátt verður til af engu.

Hef að undanförnu verið að lesa sérstaka og merkilega bók. Hún heitir „Tófan og þjóðin" og er eftir Sigurð Hjartarson. Gefin út árið 2010 af  Melrakkasetri Íslands (sýnist mér). Sigurður þess var lengi formaður svokallaðs „Félags Íslenskra Tófuvina", sem lét sér fátt óviðkomandi á sínum tíma. Í þessari bók er sagt frá ýmsu sem henti þetta félag og meðlimi þess. Upphaflega virðist þessi félagsskapur hafa verið stofnaður í hálfgerðu gríni a.m.k. af sumum félögum hans en því er ekki að leyna að alvara er að baki öllum þeim fráleitu fullyrðingum sem settar eru fram. Fróðleg bók og skemmtileg. Bók þessa fékk ég að láni hjá Borgarbókasafninu í Gerðubergi.

Þetta leiðir hugann að tófuafskiptum mínum. Eftirminnilegast er sennilega það sem átti sér stað á Kili eitt sinn er við vorum á ferðinni frá Þverbrekknamúla í Þjófadali. Ætli við höfum ekki verið svona 10 til 12 saman og höfðum sest niður til að hvíla okkur og fá okkur matarbita.

Kemur þá ekki skyndilega stálpaður tófuyrðlingur skokkandi fyrir horn og á sér greinilega einskis ills von. Þegar hann sér okkur bregður honum illilega og leggur samstundis á flótta. Einhverjir úr okkar hópi tóku líka til fótanna og ætluðu að ná rebba en sem betur fer tókst það ekki. Eiginlega gerðist ekkert meira þarna en samt er þessi atburður mér ljóslifandi í minni.

Í gönguferðinni um Hornstrandir um árið sáum við stöku sinnum tófur, en samt er það eftirminnilegast að greni þeirra virtust einkum vera á bjargbrúninni og fuglalíf var ekkert efst í bjarginu. Í Fljótavík var til siðs að gefa tófunni það sem af gekk við máltíðir. Stundum sást hún skjótast eftir matnum en var samt alltaf mjög vör um sig.

Svo voru það litlu tófuyrðlingarnir sem voru sem gæludýr á heimili Dalla og Löbbu á Akureyri. Það kom mér mjög óvar á þeim tíma og er eftirminnilegt.

Myndirnar í myndaalbúmum Moggabloggsins raðast undarlega upp. Hef ekki áttað mig að fullu á því hvernig það gerist en sé t.d. að Jóhannes F. Skaftason hefur kommentað á mynd þar. Veit ekki hvort hann getur séð hvort athugasemdunum hafi verið svarað án þess að skoða myndirnar aftur. Hef aldrei kommentað á myndir hjá öðrum sjálfur.

IMG 5182Tilkomumikið tónlistarhús.


Bloggfærslur 23. apríl 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband