1338 - Góði Frjádagur

bjossi2Gamla myndin
er af Bjössa þar sem hann lætur eins og hann hafi einn og sjálfur mokað snjóinn af tröppunum. 

Nú þarf ég að grafa dýpra. Skannaði einhverjar síður úr gamla myndaalbúminu mínu um daginn og síðan er ég búinn að vera að skera þær myndir og laga aðeins til. Eitthvað er eftir en þegar ég er búinn að birta þær hendi ég þeim en læt þær vera í Moggabloggsalbúminu og frumritsalbúminu. Samþykkt? Það þýðir ekkert fyrir neinn að mótmæla.

Bráðum verður hætt að bera út póst til mín. Það er mjög gott. Yfirpóstkallinn sagði í fréttum að öllum hefði verið sent bréf um að merkja með nafni bréfarifur og póstkassa. Ekki hef ég fengið slíkt bréf. Ef haldið verður áfram að bera út ómerkta ruslpóstinn finnst mér verið að gera ruslpóstframleiðendum hærra undir höfði en okkur pöplinum en líklega mun ég sætta mig við þetta eins og flest annað.

Ég er ekkert ónæmur fyrir fréttum sem rata í blessað sjónvarpið eða á netið þó ég sé sífellt að hnýta í fréttaskýringarblogg. Sá einhvers staðar í fréttum að verið er að safna undirskriftum um að biðja ÓRG að skrifa ekki undir fjölmiðlafrumvarpið nýja. Fór á vefsetrið þar sem þeim undirskriftum er safnað en skrifaði ekki undir enda eru svo fáir búnir að því. Skoðaði líka lista yfir þá fjölmiðla sem að þessu standa. Þar brilleruðu Mogginn og DV með fjarveru sinni og svo ætlaði ég að skoða eitthvað lögin sjálf en fékk þá yfir 300 blaðsíðna pdf-skjal svo ég gafst upp.

Munurinn á mér og Hallgrími Helgasyni er sá að þó mér detti oft ýmsir orðaleikir og útúrsnúningar í hug þá næ ég ekki nema stundum að skrifa þá niður. Ef ég geri það rata þeir stundum í bloggið mitt seinna meir. Jú, og einn annar smámunur er á okkur, hann er rithöfundur og málari en ég er hvorugt. Bara vesæll bloggari.

Nú er Gísli hlaupari hættur lénstandi sínu og skrifar bara á málbeinid.wordpress.com en ekki lengur á malbein.net eins og hann gerði. Mun samt halda áfram að fylgjast með skrifum hans og ráðlegg öðrum það líka að sjálfsögðu. Þegar ég verð rekinn af Moggablogginu ætla ég að taka mér hann til fyrirmyndar og fara á Wordpress.com.

Þegar ég skoða bloggið mitt sýnist mér að ekki sé hægt að skrifa athugasemdir nema einhvern ákveðinn tíma við bloggskrifin en endalaust við myndirnar. Þetta sýnir bara hver mikill Moggabloggari ég er. Alltaf er ég eitthvað að stússa þar en þori þó ekki að breyta útlitinu á blogginu mínu. Þetta er mín saga. Ég er íhaldssamari á sumt en góðu hófi gegnir en samt finnst mér sjálfum að ég sé með afbrigðum frjálslyndur. Líklega er ég það á sumt.

Nú er föstudagurinn langi byrjaður í öllu sínu veldi þegar þú lest þetta. Í tilefni af því hef ég kappkostað að hafa þetta blogg bæði langt og leiðinlegt. Þannig eiga hlutirnir að vera á þessum degi. Aðalspurningin hjá mörgum er hvort óhætt sé að byrja á páskaegginu. Sumir segjast líka reikna með að fá mörg og þess vegna veiti ekki af að byrja í tæka tíð.

IMG 5179Take me to your leader.


Bloggfærslur 22. apríl 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband