1331 - Hvar er þingrofsrétturinn

kiddiogmummiGamla myndin.
Hún er greinilega af Kidda Antons og Mumma Bjarna Tomm. Tekin 1958. Hef ekki hugmynd um hvaða kveðja þetta er hjá Kidda. 

Hvar er þingrofsrétturinn? Mér kæmi ekki á óvart þó ÓRG þættist hafa fundið hann á förnum vegi úti á Álftanesi. Sú var tíðin að menn þrættu sig rauða í framan yfir þingrofsréttinum og hvar hann ætti að vera hverju sinni. Nú má enginn vera að því lengur. Icesave er merkilegra, svo ekki sé nú talað um átökin í Sjálfstæðisflokknum eða aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar.

Horfði öðru hvoru á beina útsendingu frá umræðum og atkvæðagreiðslu um vantraust á ríkisstjórnina. Svo virðist vera sem þingmenn telji sig almennt vera með þingrofsréttinn í vasanum. Ég er samt ekki viss um að svo sé. Um það og fordæmi öll verður sjálfsagt mikið deilt þegar tilefni gefst til.

Jónas Kristjánsson segir að sjónvarpað hafi verið beint frá öllu gumsinu og á þar að ég held við atkvæðagreiðsluna um vantraustið. Svo var ekki og ég hugsa að útsendingarstjórinn hjá RUV hafi átt í einhverjum erfiðleikum. Mun lengri tíma tók að ákveða sig í handboltanum en ráð var fyrir gert.

Sem betur fer þurfti mikill fjöldi þingmanna að gera grein fyrir atkvæði sínu svo þeir sem með sjónvarpinu fylgdust hafa líklega fengið úrslitin bæði í handboltanum og vantraustinu beint í æð. Sjálfur hætti ég að svissa á milli stöðva þegar ég var orðinn næstum úrkula vonar um að alþingi kæmist í sjónvarpið.

Um þessi úrslit ætla ég ekkert að fjölyrða enda hefði þá verið nær að gera það í gær. Spakmæli Harðar Haraldssonar um að aldrei skuli fresta því til morguns sem alveg eins er hægt að gera hinn daginn fellur mér æ betur í geð.

Náttúruhamfarir eru oftast hraðfara. Jarðskjálftar, eldgos, skriðuföll og flóðbylgjur gera ekki boð á undan sér. A.m.k. ekki með nógu miklum fyrirvara til að fólk nái að bjarga sér og sínum eigum. Endurtaka sig samt reglulega.

Hægfara náttúruhamfarir eru þó líklega fullt eins hættulegar. Mannkynið tekur samt frekar lítið mark á viðvörunum um slíkar hættur. Að svo miklu leyti sem hnatthlýnun, geislun og hverskonar ruslasöfnun er mönnum að kenna er sem betur fer ævinlega hægt að kenna fremur öðrum um en sjálfum sér.

IMG 5130Hvernig á að skipta göngustíg við svona aðstæður?


Bloggfærslur 15. apríl 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband