1293 - Ofurlaun og fleira

Ótrúlega margir eiga erfitt með að sjá bloggið í réttu ljósi. Flestir þykjast vera  betri en allir aðrir. Sjálfur er ég líka þannig. En ég er ekki eins orðljótur og sumir. Ekki eins mikið fyrir að þykjast vita allt um hrunið og ástæður þess. Ekki eins mikið fyrir að úthúða öllum ráðamönnum og ríkisstjórn. Ekki eins mikið á móti öllum sköpuðum hlutum. Þetta finnst mér allavega. En er það ekki bara einhver aumingjaskapur í mér? Langar mig ekki í rauninni til að vera eins og hinir? Og er ég ekki alltaf að agnúast útí fésbókina? Mest vegna þess að ég næ engum tökum á henni sjálfur. Þykist ég ekki vera yfir aðra bloggara hafinn? 

Páll Vilhjálmsson og Jónas Kristjánsson eru báður fyrrverandi blaðamenn og núna snjallir bloggarar. Jafnvel með þeim öflugustu. Hnitmiðaður og stuttaralegur stíll er aðalsmerki beggja. Svolítið takmarkaðir samt því þeir blogga nær eingöngu um pólitísk málefni. Svo eru þeir hreint ekki sammála og hrikalega neikvæðir báðir tveir. Áhrifamiklir held ég samt að þeir séu.

Frá sjónarmiði okkar bloggara finnst mér þeir verstir sem lesa bæði bloggið og fésbókina villt og galið en nota hvert tækifæri sem býðst til að skíta fyrirbærin út. Kunna bara ekki að skrifa sjálfir en telja sjálfum sér trú um að þeir viti allt.

Og áfram með smjörið.

Fulltrúi bankasýslu ríkisins í stjórn Aríon-banka samþykkti launahækkun bankastjórans. Hann er fulltrúi ríkisins í stjórn bankans og þar með hefur ríkið samþykkt þennan gerning. Það þýðir lítið fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur að vera forviða á þessu ef ekkert er gert með það. Steingrímur J. Sigfússon er sterki maðurinn í ríkisstjórninni og ef hann sér ekki til þess að þetta sé lagfært þá er hann að herða snöruna að eigin hálsi.

Beiti ríkisstjórnin sér ekki í Icesave-málinu bendir það til að hún ætli að sitja áfram þó frumvarpið verði fellt. Margt bendir til að mjótt geti orðið á mununum varðandi úrslit málsins. Verði málið fellt hefst sama vitleysan enn á ný. Ekkert bendir samt til að sambærilegur árangur náist að þessu sinni jafnvel þó takist að fá viðsemjendurna að samningaborðinu aftur sem ekki er með öllu útilokað. Í fyrra minnir mig að aðstæður hafi verið þannig að útilokað var að greiða atkvæði með frumvarpinu en nú sýnist mér það vera hægt.

IMG 4771Trjágróður.


Bloggfærslur 9. mars 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband