1315 - Stríð og friður

Undarleg sótt þessi bloggsótt. Þegar ég vakna á morgnana er ég ekki í rónni fyrr en ég er svolítið byrjaður á næsta bloggi. Það sem ég á skrifað þegar kvöld er komið set ég svo gjarnan upp rétt eftir miðnætti, ef ég nenni að vaka svo lengi.  

Sú dýrkun á ofbeldi sem einkennir ameríska menningu kemur vel fram í kvikmyndum þeirra og nú í stríðsrekstri vestrænna þjóða í Líbýu. Tek samt alls ekki undir með hörðustu gagnrýnendum Líbýustríðsins og trúi því einfaldlega ekki að herir bandamanna drepi saklaust fólk viljandi hvort sem þeir eru undir stjórn Bandaríkjanna eða NATO.

Hins vegar er tekið mark á því sem sagt er og vilji til að allir geri það. Gallinn er bara sá að svo margt er sagt og misjafnt hvernig það er túlkað. En tölum ekki meira um það.

Uppreisnarmenn í Líbýu og stuðningsmenn Gaddafi sem hamast við að drepa hvorir aðra vilja það í rauninni alls ekki. Þeir eru bara fórnarlömb aðstæðna. Hverjir hafa skapað þessar aðstæður? Um það vilja menn gjarnan vera ósammála og fer það einkum eftir stjórnmálaskoðunum hvaða skoðun menn aðhyllast í því efni.

Það er samt einfeldningsleg skýring því þegar svona er komið eru mál gjarnan orðin svo flókin að venjulegt fólk getur alls ekki myndað sér skoðun á þeim málefnum sem deilt er um. Veit heldur alls ekki allt sem þarf að vita til þess.

Sem betur fer er engin hætta á stríðsátökun útaf Icesave. Hátt hafa menn þó og deila hart. Ef nóg væri hér til af öflugum vopnum væri hugsanlega einhver hætta á að gripið yrði til þeirra.

Í mínum huga er vopnleysi Íslands og þýðingarleysi þess í heimsátökum einn helsti kostur þess. Ekki hið margrómaða hreina loft, óviðjafnanlega fegurð og sögurnar sjálfar. En enginn ræður sínum næturstað og væri ég Líbýumaður væri ég eflaust búinn að taka afstöðu í þeim málum sem deilt er um þar. Jafnvel stuðningsmaður Gaddafis ef ég teldi meiri líkur á að ég héldi lífi þannig.

Þegar kalda stríðið stóð sem hæst var því almennt trúað að Ísland gæti komið til með að gegna verulegu hlutverki í stríði ef það brytist út. Nú hafa aðstæður breyst og fáir trúa á hernaðarmikilvægi landsins. „Sem er mjög gott", eins og sagt er.

IMG 5042Reisulegt hús á Akranesi.


Bloggfærslur 31. mars 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband