1304 - Sælgæti, sígarettur, vindlar

Varðandi Gaddafi og Japan hafa svo margir sagt það sem ég ætlaði að segja að ég sleppi því bara. Ýmislegt ófínt á sér stað þessa dagana sem hægt væri að slá pólitískar keilur með. Hvað mig snertir eru keilurnar í sjónum bara orðnar svo fáar að ég nenni ekki að leita að þeim.

Auglýsingakeilur finn ég þó öðru hvoru. Hagkaupsveldið auglýsir stórt í „Fréttatímanum" sem út kom á föstudaginn. Bregður jafnvel fyrir sig dönsku og segir „danske dager" með risaletri. Mín Andrésar Andar dönskukunnátta segir mér að errinu sé ofaukið en fínar auglýsingastofur eru víst á öðru máli.

Líklega er ég að komast á Sigurðarstigið því mér finnst fátt skipta máli nema veðrið. Gluggarnir hér eru líka svo vel heppnaðir að oftast er meira gaman að horfa útum þá en að bloggast hér allur í keng.

Athugasemdirnar í gær voru fremur margar. Laugardagsbloggin eru góð segja sumir. Sunnudagsbloggin ættu að vera enn betri en eru það bara ekki. Þeir sem illa eru haldnir af bloggsótt ættu því að lesa laugardagsblogg alla daga vikunnar.

Nú er ég að hugsa um að fara út að hjóla á hjólum atvinnulífsins. Merkilegt hvað allt er yfirleitt meira eða minna en gert var ráð fyrir. Á þessu er hægt að tönnlast fram og aftur í hverjum fréttatímanum eftir annan. Ég er orðinn hundleiður á þessu og þegar vorið kemur þá ætla ég að taka það og henda því í næsta fréttamann.

Ég er sískrifandi áskrifandi og gegnherílandi. Segi bara svona. Nú er ég í orðastuði enda er veðrið gott og ég búinn að fara í bað og þvo af mér Icesave-skítinn. Hugsa ekki meira um það mál. Kannski hverfur það bara.

Það er lítill eða enginn vafi á því í mínum huga að Jón Bjarnason er tekinn fyrir af unnendum ESB vegna þess að hann gefur höggstað á sér. Mér finnst hann mega vara sig á að ganga ekki of langt. Svo getur farið að hann vinni bændum landsins meira tjón en gagn. Ríkisstjórnin hefur sótt um aðild að Evrópusambandinu og mér finnst það ganga illa upp að einn ráðherrann sé sífellt á móti hinum í öllum málum sem sambandið snerta og spilli jafnvel fyrir í málum sem snerta önnur ráðuneyti. Þetta er bara minn pólitíski fimmeyringur í dag.

„Sælgæti, sígrettur, vindlar," söngluðu strákarnir á Melavellinum í eina tíð. Skelfing er maður orðinn gamall að muna eftir svonalöguðu. En svona er þetta. Sumt man maður hindrunarlaust og annað ekki.

IMG 4956Snjórinn situr á bekkjunum og hefur það gott.


Bloggfærslur 20. mars 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband