1286 - Kristleifur á Stóra-Kroppi

Í mínum huga er mars, sem nú er nýbyrjaður, vetrarmánuður. Enginn vafi á því. Apríl getur hinsvegar brugðið til beggja átta. Vetrarmánuður eða vormánuður. Duttlungar náttúrunnar. Maí er hinsvegar tvímælalaust vormánuður. Í minningunni eru maíkvöldin sérstök góðveðurskvöld. Þá vorum við í „sto" eða „yfir" kvöld eftir kvöld. Fórum þó stöku sinnum í „kjöt í pottinn". Svo í september var komið haust. Október beggja blands en nóvember vetrarmánuður. Svoleiðis var nú það. Held ég sé að verða veðursjúkur.

Seinnipartinn í dag rigndi hressilega. Hundum og köttum er sagt á enskunni. Úrhellisrigningu kalla ég þetta. Hann hlandrignir segja sumir. Þegar talað er um hlandrigningu dettur mér alltaf í hug vísan góðkunna:

Regnið þungt til foldar fellur
fyrir utan gluggann minn.
Það er eins og milljón mellur
mígi í sama hlandkoppinn.

Svona er nú hugsunarhátturinn. Get samt ekkert að þessu gert.

Óttalega er Icesave-umræðan orðin þreytt eitthvað. Sérfræðingarnir í bankamálum eru líka orðnir afar margir eftir að bloggið kom til sögunnar. Mér finnst annar hver maður skrifa af ofurviti (að eigin áliti) um fjármál og skyld málefni og hafa einnig miklu meira vit á öllu en almennar þingmannsvæflur og ráðherraræflar sem þó reyna að kynna sér málin eins vel og vit þeirra hrekkur til. Ætli endirinn verði ekki sá að allmargir samþykki Icesave-samninginn bara til að losna við umræðuna endalausu.

Bókin sem ég er að lesa um þessar mundir heitir „Úr byggðum Borgarfjarðar" og er eftir Kristleif Þorsteinsson á Stóra-Kroppi. Það er Þórður sonur hans sem annast útgáfuna og bókin er gefin út árið 1944. Stórmerkileg bók og forvitnileg. Bæjarnafnið er skemmtilegt og sérkennilegt og býður heim ómerkilegum bröndurum sem ég ætla að stilla mig um að tilfæra hér dæmi um. Kannski kem ég einhverju að úr bókinni seinna meir en ég er nýbyrjaður á henni núna.

Fjölskylda Hannesar Þórs Helgasonar hefur tjáð sig um dóminn yfir banamanni hans. Þó ég vilji ekki á nokkurn hátt gera lítið úr sorg fjölskyldunnar og vonbrigðum með dóminn finnst mér að brotaþolum í málum sem þessu komi lítið við hvernig þjóðfélagið refsar þeim seku. Auðvitað á þjóðfélgið eftir því sem mögulegt er að tryggja að fólk þurfi ekki að verða fyrir glæpum af þessu tagi. Hvernig það er gert er yfirleitt ekki til bóta að brotaþolar ákveði. Hvað þetta sérstaka mál varðar þá finnst mér afar einkennilegt ef lausn afbrotamanns úr gæsluvist getur farið fram án afskipta dómstóla.

IMG 4666Gott er í góðu veðri mynd að mála.


Bloggfærslur 2. mars 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband