1303 - Hafragrautur og fleira

Alveg er mig búið að hlakka til þess í allt kvöld að fá mér kornflex. Já, ég er svo skrýtinn að ég borða frekar kornflex á kvöldin en á morgnana. Auðvitað á maður ekki að éta meira en nauðsynlegt er. Ég hugsa að ég gæti alveg sofnað þó ég æti ekki allt þetta kornflex (mjólk og sykur auðvitað í viðbót). Þar með gæti ég kannski losnað við ístruna. Undar örlög þessi ístra. Ég var ekkert tiltakanlega feitur held ég þegar ég var ungur. En það er svo margt sem breytist. 

Sumir eru hissa á því að ég skuli hrósa sjálfum mér á þessu bloggi sem ég á einn og sjálfur. Mín afsökun er sú að ef ég hrósa mér ekki sjálfur þá gera það engir, hvernig sem á því stendur. Og hróssins þarfnast ég. Auðvitað reyni ég að gera það á þann hátt að alveg eins megi taka því sem einhverju gríni en vitanlega er mér full alvara.

Mér finnst alveg herfilegt að sjá ekkert nema hríðarbyl útum gluggann meðan ég er að skrifa þetta. Í alvöru talað finnst mér að veðurguðirnir eigi ekki að láta svona. Það er útaf fyrir sig að hafa leiðindaveður í janúar og jafnvel eitthvað fram í febrúar en að halda áfram langt fram í mars er algjör óþarfi. Það má alveg fara að vora svolítið.

Konan mín skipaði mér að fara í tramparaskóna mína áður en ég færði fuglunum morgunverðinn. Ég fattaði nú ekki alveg þetta með tramparaskóna en sennilega átti ég að slétta morgunverðarborðið sem mest áður en ég léti þá fá matinn. Svo kom haglél og sennilega fer allt á kaf áður en tími vinnst til að éta þetta sælgæti.

Nú hamast einhverjir við að auglýsa hafragraut. Bara af því að mér þykir hann góður. Sumir eru svo vitlausir að halda að hafragraut sé bara hægt að búa til úr Sólgrjónum. Svo er samt allsekki en mér finnst ágætt að ímynda mér að einhverjir séu svona vitlausir. Sjálfur geri ég minn hafragraut oftast úr Euroshopper haframjöli því það er ódýrast.

Hef verið að deila við einhvern AÁÍ (Afdrifaríkasta ákvörðun Íslandssögunnar) í kommentakerfinu hjá Svani Gísla Þorvaldssyni. Þetta eru athugasemdir við færslu sem heitir „Yndislegt" og er einskonar Icesave-deila og ég hvet alla sem hafa mikinn áhuga á því máli (eru víst orðnir fáir) til að kíkja.

Hef verið að skoða gömul blogg eftir mig. Get ekki varist þeirri hugsun að bloggin mín hafi verið miklu skemmtilegri áður fyrr. Mest hef ég skoðað endurminningar og margt skemmtilegt hefur rifjast upp fyrir mér. Varla eyk ég ánægju lesenda þessa pistils með því að halda því fram að áður hafi ég skrifað skemmtilegri blogg. Það er líka hægt að halda því fram að mér fari sífellt fram við skriftirnar. Dægurmálin leiðast mér skelfilega svo einkum eru þetta allskonar hugleiðingar núorðið eftir að skrúfast hefur að mestu fyrir endurminningarnar.

IMG 4955Allt á kafi í snjó. Eða þannig.


Bloggfærslur 19. mars 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband