1301 - Bækur

Tryggð mín við Moggabloggið er ótrúleg. Það eru varla nema hörðustu íhaldsmenn sem halda þar jafnlengi áfram og ég. Þó er ég ekki íhaldssamur. A.m.k. finnst mér það ekki sjálfum. Svei mér ef lesendum mínum er ekki að fjölga. Moggabloggið er þó stöðugt að missa vinsældir sínar. Velti nokkuð mikið fyrir mér hvort vinsældir skrifa minna eða óvinsældir eru undir bloggstaðnum komnar. Finnst þeir ekki hafa gert rétt sem héðan hafa farið með hávaða og látum útaf einhverjum stjórnmálalegum ástæðum og held að oft hafi þeir séð eftir því.

Margir verða til þess að kommenta á bloggið mitt. Vissulega eru það oft þeir sömu og kommentin frá þeim verða oft nokkurskonar samtal. Nýir aðilar bætast þó alltaf öðru hvoru við og flestir eru þeir jákvæðir.   

Einn aðalgallinn við bloggið í sambandi við endurminningar er hve sundurlaust það er. Minningar þurfa helst að vera samhangandi og gera þarf ákveðnum tímabilum skil. Skapa þarf andrúmsloft með skrifunum og raða minningunum rétt niður. Það hentar ekki að setja það sem skrifað er á hverjum degi samstundis á bloggið. Annars er þetta auðvitað bara eitt vandamál af mörgum sem sá sem endurminningar vill skrifa verður að takast á við.

Fór á bókasöfnin í dag. Já, nú orðið þarf ég að fara oftar þangað en áður var vegna þess að á Borgarbókasafninu er búið að stytta lánstímann úr einum mánuði í 21 dag. Meðal bóka sem ég fékk lánaðar er bók sem heitir: „Encyclopedia of things that never were." Í þessari bók sýnist mér að margt athyglisvert sé og kannski skýri ég hér frá einhverju af því hérna. Auk þess fékk ég nýtt hefti af Söguþáttum landpóstanna og margt fleira.

Einnig fékk ég lánaða bókina: „Skáklist" sem listasafn Reykjavíkur gaf út árið 2009 í tilefni af sýningu sem þar var haldin. Þar eru myndir af mörgu athyglisverðu sem skák snertir en ekki er víst að ég geti mikið um þá bók hér. Afritun er með öllu bönnuð.

Þegar ég var yngri fannst mér ég geta allt. Ástæðan fyrir því að ég var ekki á þingi og ekki í ríkisstjórn var aðallega að sjálfsögðu sú að ég nennti því ekki og kærði mig ekki um það. Svo var málið þannig vaxið ennfremur að aðrir sáu ekki alltaf hæfileika mína enda var ég útsmoginn í að leyna þeim.

Þegar ég eltist og vitkaðist fann ég smám saman að aðrir vissu og gátu bara ýmislegt líka. Satt að segja voru þeir furðu margir. Nú á mínum efri árum finnst mér jafnvel að sumir standi mér framar. En það eru ekki margir.

IMG 4914Blóm.


Bloggfærslur 17. mars 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband