1299 - Sannfæring um Icesave og ESB

Þeir sem eru að deila við mig í kommentakerfinu um Icesave og skyld mál hljóta að vera að reyna að sannfæra mig eða hugsanlega aðra sem lesa kommentin. En gera það margir af þeim sem þó líta inn? Kannski þau fyrstu en síðan hlýtur þeim að fara fækkandi. Ég les þó alltaf allar athugasemdir sem koma í kommentakerfið mitt og aldrei hefur það valdið mér neinum vandræðum. Kannski er þessum andstæðingum mínum bara illa við að ég sé að halda fram andstæðum skoðunum við þeirra sannfæringu. 

Sannfæring margra virðist vera afar sterk þegar kemur að málum af þessu tagi. Í mínum huga eru peningar samt alltaf bara peningar. Á margan hátt er það einungis framtíðin sem skiptir máli. Nútíðin hefur samt spilað alltof stóra rullu undanfarin ár meðal okkar Íslendinga. Þó margir hafi áhuga fyrir fortíðinni þarf það engan vegin að þýða að samanburður milli tíða sé alltaf fortíðinni í hag. Mannskepnan breytist sem betur fer og ég er alls ekki frá því að framfarir séu á fleiri sviðum en afturför.

Sá siður virðist vera að verða landlægur á landi hér að kenna útlendingum um flest sem aflaga fer. Upp og ofan eru útlendingar auðvitað alls ekkert verri en við. Bara öðruvísi. Margir skilgreina sjálfa sig eftir trúnni ef ekki dugar að gera það eftir þjóðerni. Þannig eru múslimar úthrópaðir víðast hvar í vesturheimi og yfirleitt dregið fram það versta í trú þeirra og heimfært á alla sem trúna játa. Ekki dettur mér í hug að samsinna því fráleitasta í kristinni trú þó mér þyki hampaminna að játa henni en vera að hamast við að finna einhverja nýja. „Trúmál eru einkamál", er setning sem mér finnst að taka beri alvarlega.

Sumir geta að vísu varla skrifað um annað en trúmál og við því er ekkert að segja. Auðvitað skipta þau máli. En það er hægt að ræða um hvað sem vera skal og vera sammála (eða ósammála) um það án þess að það komi trúmálum nokkuð við. Sú er að minnsta kosti mín skoðun. Aðrir sjá allt í ljósi þess sem þeir hafa sérstakan áhuga á og það er bara ágætt.

Einræða sú sem bloggið óneitanlega er fellur mér ágætlega. Hér get ég vaðið elginn á hverjum degi og skrifað um það sem mér dettur í hug. Lesendur eru líka furðu margir ef marka má teljarann. Sennilega er ég einkum að þessu til að troða mínum skoðunum upp á þá sem þetta lesa. Ekki get ég með öllu neitað því ef ég skoða hug minn vel. Líklega liði mér best ef allir hugsuðu eins og ég.

Það sem þingmenn kalla við hátíðleg tækifæri óundirbúinn fyrirspurnartíma ætti að heita undirbúinn áróðurstími eða bara hálftími hálfvitanna eins og Jónas kallar þetta.

IMG 4898Grillaðar og girnilegar sardínur.


Bloggfærslur 15. mars 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband