6.2.2011 | 09:24
1262 - Bjarni Benediktsson
Jú, umræðan snýst mest um Bjarna Benediktsson og Sjálfstæðisflokkinn þessa dagana og kannski var það ætlunin. Mér finnst Bjarni loksins hafa tekið á sig rögg og ætli sér að hrifsa völdin af Davíð og þeim sem hann styðja. Ef hann kemur standandi niður úr þessum hildarleik hefur hann alla burði til að verða langlífur sem formaður flokksins. Það er alls ekki ólíklegt að hann hafi það sama í hyggju varðandi ESB og hann er nú búinn að gera varðandi Icesave.
Tenerife ferðin er mér enn ofarlega í sinni. Í Santiago del Teide stoppuðum við í Teide-Masca ferðinni. Þar borðaði ég bæði stóra sneið af svínakjöti og stórt kjúklingalæri (furðustórt eiginlega) fyrir utan allt hitt. Súpuna á undan, salatið, brauðið, spægipylsuna, olívurnar og allt saman. Og allt rauðvínið. Ég er átvagl með ístru. Ekki hugsa ég að ég geri eins og í fyrra að setja allt mitt skrifelsi á bloggið í heildsölu. Reyni kannski að tína það bitastæðasta úr.
Að fara til Masca var heilmikil upplifun. Sama er að segja um fleiri staði og sögurnar sem fararstjórinn sagði okkur eru minnisstæðar þó ég endursegi þær ætla ekki hér.
Vegurinn til Masca er eftirminnilegur. T.d. gekk illa eitt sinn þegar við mættum annarri rútu og þurfti mörgum sinnum að bakka. Stórar rútur fara ekki þarna því þær ná ekki beygjunum. Örugglega er ekki langt þangað til einstefna verður tekin upp þarna og annar vegur lagður. Þetta gengur ekki. Það gekk oft erfiðlega að fá litla bíla sem við mættum nógu langt út í kant. Ágætlega gekk samt að mæta fjórum jeppum sem þar voru á ferð enda voru það engir Hummerar, bara venjulegir Landroverar eða eitthvað þess háttar. Landslagið við Teide var líka mjög sérkennilegt og fallegt. Við stoppuðum við stað þar sem vegurinn endar en hægt er að halda áfram með kláfum. Þeir voru fullbókaðir og ekki tími til að bíða eftir þeim. Skoðuðum bara umhverfið og tókum myndir. Stoppuðum einnig við einhvern stað sem mig minnir að heitið Geraticho eða eitthvað þessháttar. Þar var ýmislegt til sölu t.d. ekta og góður saffran ræktaður á staðnum.
Blóm vaxa auðvitað líka á Tenerife.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
6.2.2011 | 00:07
1261 - Sjálfumsnúinn og hálffreðinn
Tuttugu og sjö ummæli við status hjá mér á fésbókinni er sennilega met. Þar var stjórnlagaþingið til umræðu. Líklegast þykir mér að í því máli gerist ekki margt annað en að fólk deili um þetta fram og aftur. Stjórnmálamennirnir og flokkaræflarnir halda líklega áfram að halda öllu í sömu skorðum og verið hefur. Íhaldssemi getur verið ágæt en athuga þarf að ótti við breytingar getur hindrað allar framfarir.
Ragnhildur, mér sýnist að fólk trúi þessu ekki frekar en öðru á Íslandi. Sæmundur Bjarnason, sem hefur bloggað 1133 sinnum á sinn landsþekkta, hálffreðna og sjálfumsnúna hátt, vill helst að þetta sér grín: http://saemi7.blog.is/blog/saemi7/entry/1092706/"
Þetta sagði Villi í Köben einu sinni um mig í athugasemd. Hef ekki minnst á þetta á blogginu fyrr enda uppgötvaði ég þetta ekki fyrr en nýlega. Hálffreðna og sjálfumsnúna hátt" er orðalag sem ég skil ekki almennilega en þetta sannfærir mig um að einhverjir lesa bloggið mitt og meta það einhvers þó ekki sé það á þann hátt sem ég helst vildi.
Man allt í einu núna eftir óvenjulegu atviki úr flugferðinni til Tenerife. Ég sá út um gluggann þotu sem við mættum í háloftunum. Hún var talsvert frá og fyrir neðan okkur og ég hefði ekki tekið eftir henni nema vegna svarta reyksins sem hún spúði aftur úr sér.
Já, við mennirnir erum önnum kafnir við að menga heiminn. Eins og Sagan (ég á við Carl Sagan, en ekki söguna þó merkileg sé) segir.
Við lifum í lokuðu kerfi. Ekkert kemur inn nema sólarljósið. Að öðru leyti lifum við hvert á öðru. Það jafnvægi sem komist hefur á í þessu tilliti á milljónum ára erum við mennirnir e.t.v. að trufla á fáeinum áratugum og fáum kannski ekki að vita það fyrr en of seint.
Af hverju segi ég þetta? Það er alls ekki víst að maður hafi áhrif á nokkurn mann. Þó er það möguleiki. Minnist þess ekki að hafa áður séð flugvél sem mætt er í háloftunum. Kannski hefur maður áhyggjur af röngum hlutum. Það sem er virkilega ískyggilegt kemur venjulega á óvart.
Pálmanna strönd þegar merlar máni.....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)