1260 - Ja, hérna

Nú er lagerinn af bloggum búinn hjá mér. En myndirnar ekki. Hvað gera Danir þá. Nú, stytta bloggin og lengja myndirnar. Ég sem var farinn að halda að ég gæti farið að blogga tvisvar á dag eins og ekkert væri. 

Einn aðalkosturinn við Tenerife-dvölina var að þar er hægt að vera hálffullur allan daginn án þess að það kosti nokkuð að ráði. Fékk Sangría-dellu að þessu sinni enda lítrinn bara á 0,79 evrur.

Það er fínt að hvíla sig svona á blogginu og koma endurnýjaður heim aftur. Sjálfum finnst mér þetta blogg, sem ég er byrjaður á núna, ekki sem verst. Öðrum kann að finnast það heldur þunnt.

Jæja, nú er ég farinn út að ganga, en set fyrst upp þetta örblogg. Kannski verður eitthvað bitastæðara hjá mér í kvöld.

IMG 4163Myndarlegt tré.


1259 - Getur ekkert gert vel

Getur ekkert gert vel
gengur þó með sperrt stél.
Bertél.

Þessi vísa getur svosem átt við mig. Finnst samt ekki sjálfum að ég sé með sérlega sperrt stél. Annars ætlaði ég að nota þessa vísu sem inngang að sögu um Kristmann Guðmundsson og Jóhannes úr Kötlum. Kristmann segir frá þessu í einni af Ísoldarbókum sínum sem eru nokkurs konar ævisaga. Hann og Jóhannes voru staddir á símstöðinni í Hveragerði ásamt einhverjum öðrum þar sem m.a. þessi vísa kom til umræðu. Þá víkur Jóhannes sér að Kristmanni og segir:

Lít ég einn sem list kann.
Löngum hafa þær kysst hann.
Kristmann.

Kristmann segist hafa svarað þessu fljótt þó venjulega væri hann fjarri því að vera hraðkvæður:

Fleiri þó við ötlum
að farið hafi úr pjötlum
í Kötlum.

Hef líkast til bloggað um þetta áður. Sjaldan er samt góð vísa of oft kveðin.

Fréttablogg henta mér ekki. Mér finnst öðrum ekki koma það mikið við hvað mér finnst um tiltekna atburði. Mér finnst líka umhendis að vera að blogga um persónuleg málefni og hvað ég tek mér fyrir hendur og þ.h. Hvað er þá eftir? Jú, blog um blog og að þykjast vera gáfaður. Ég get sagt frá ýmsu sem áhrif hefur á mig. Endurminningar hverskonar eru líka í lagi. Ef of margir lesa bloggið mitt er samt hætta á að ég ofmetnist og fari að tala tungum.

Það er ekkert síðra að labba hér um fáfarna stígana í Kópavogi og hlusta á snjóinn marra undir fótum manns en að ganga eftir ofurfjölmennri leið allt frá San Augustine til Melónustrandar á Gran Canarie. Nú eða á prómenaðinu hjá Los Christianos á Tenerife. Nakta kroppa sér maður auðvitað enga hér í Kópavoginum en hvað með það? Veðrið hefur lítil áhrif nema þá helst á það hvernig maður klæðir sig áður en maður fer út.

Nú er ég farinn að auglýsa bloggið mitt rækilega á fésbókinni. Veitir sennilega ekki af.

IMG 4154Tré meðfram götu og þarna virðist vera íþróttavöllur.


Bloggfærslur 5. febrúar 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband