1256 - Bloggað með látum

Sumum finnst mikið að blogga daglega. Öðrum finnst það lítið. Kannski ég ætti bara að fara að blogga oft á dag. Ekki nenni ég samt að vera alltaf að linka í fréttir.

Númerin mín hækka þá líka fyrr. Veit ekki hvað ég geri þegar tölustafirnir verða fimm. Byrja kannski á einum aftur.

Mér er svo mikið mál að blogga eftir bloggþurrðina í janúar að ég held að ég láti bara vaða.

Steinitz, Lasker, Alekhine og Fischer eru að mörgu leyti mínir menn meðal heimsmeistara skáklistarinnar. Finnst eins og þeir hafi þegar best lét haft meiri sigurvilja en aðrir slíkir. Ég er ekkert að gera lítið úr öðrum heimsmeisturum en grunar að þeir séu ívið meiri jafntefliskóngar en þeir fyrrnefndu. Fischer hefur lengi verið í miklum metum hjá mér. Viðurkenni samt að í einkalífinu var hann ákaflega misheppnaður maður og hafði þróað með sér skoðanir sem virtust á margan hátt vera til þess ætlaðar að hneyksla og meiða.

Undanfarið hef ég verið að lesa bókina um Önnu á Hesteyri. Það er ágæt bók og heimspeki Önnu er mér miklu meira að skapi en margra annarra. Hún vildi engum mein gera og var dýravinur hinn mesti. Oft var samt eins og hún vildi ganga fram af fólki. Þannig var Gísli á Uppsölum einnig. Held að hann hafi verið alveg normal en séð að öðruvísi en með afkárahætti gæti hann ekki látið neinn taka eftir sér.

IMG 4068Hér gekk mikið á þegar 2010 var kvatt.


1255 - Góða fólkið breska

IMG 3595Á Tenerife týndi ég myndavélinni minni og tilkynnti um tapið til lögreglunnar að sjálfsögðu og úr varð heilmikið ævintýri. Fína skýrslu á spænsku fékk ég þó að lokum og er afrit af henni hér:

Image (59)Þessa skýrslu þarf ég þó ekkert að nota því myndavélin þó ómerkt væri komst aftur í mínar hendur að allmörgum dögum liðnum. Það er eingöngu að þakka fólkinu sem sést á myndinni hér fyrir ofan. Það kom vélinni til mín með talsverðri fyrirhöfn og vildi engin fundarlaun þiggja eða neitt af því tagi. Mynd tókst þó að ná af þeim og vil ég nota þetta tækifæri til að þakka þeim kærlega fyrir að koma myndavélinni til skila.

Ég hef alla tíð verið þeirrar skoðunar að það góða í fólki sé sífellt að verða sterkari þáttur í skapgerð þess og þessi upplifun dregur ekki úr því áliti mínu að heimurinn fari stöðugt batnandi en ekki versnandi.  

IMG 4059Hér varð eldsvoði á gamlárskvöld.


Bloggfærslur 3. febrúar 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband