1271 - Avatar

Finnst alltaf dálítið vitlaust þegar verið er að jamla um að ekki megi gefa Afríkubúum neitt sem mögulega eyðileggur „business" fátækra landa þeirra. Þetta er í raun sama röksemdin og hljómplötuframleiðendur nota þegar þeir eru að reikna út hve miklu þeir tapa vegna sjóræningjaútgáfu í heiminum. Er nokkur vissa fyrir því að sveltandi Afríkubúar kaupi úlpu eða bol af fátækum frænda sínum þó þeim standi það til boða? Hjálparstarfsmennirnir sem selja skyrturnar á markaðinn í Addis Ababa hafa þó einhvern ávinning af gjöfunum.

Egill Bjarnason (Austurlandaegill) frændi minn er á ferð um Senegal þessa dagana. Gaman að fylgjast með blogginu hans.

Egill sparar orðin
enda nokkuð dýr.
Um Afríku ég elti hann.
Eyði samt ekki neinu
og ekki er keyrt á hjólið mitt.
Ég bara ét og sef.

Yfirleitt er ég ekkert feiminn við að vera öðruvísi en aðrir. Eins og margir bloggarar er ég undir þá sök seldur að fullyrða oft um hluti sem ég hef lítið vit á. Eitt slíkt er hjálparstarf í Afríku. Á því hef ég litla þekkingu og hef aldrei til þeirrar heimsálfu komið. Samt hef ég skoðanir á öllu mögulegu. Læt þær ekkert endilega í ljós en þær eru þarna að veltast um í heilagrautnum.

Af hverju ættu vandalausir að leggja það á sig að lesa bloggið mitt? Ég er ekkert að ætlast til þess en svo virðist sem einhverjir hafi vanið sig á þessi ósköp. Þeim er ekki viðbjargandi og mér auðvitað ekki heldur.

Það er tungunni tamast sem er hjartanu kærast. Þegar ég yrki er það gjarnan um Facebook.

Fésbókin er ferlegt raus
og fáránlega snúið.
Orðin standa öll á haus
og alltof mikið búið.

Horfði á kvikmyndina „Avatar" um daginn. Satt að segja fannst mér hún fyrst og fremst asnaleg. Jú jú, hún er um margt ágætlega tekin og vel gerð að mörgu leyti en með ólíkindum einfeldningsleg. Minnisstæð verður hún ekki. Oddmjóu eyrun, halarnir og ljósálfarnir eru skelfilega ofnotaðir áhersluþættir í myndum af þessu tagi. Undarlegt hve mikið lof hún hefur fengið. Get vel fallist á að ef vel tekst til og allar listgreinar leggja saman getur vel gerð kvikmynd orðið eftirminnileg. Þessi kvikmynd hefði vel getað orðið það því mörg atriði voru í ágætu lagi þó önnur væru hrikalega misheppnuð.

IMG 4275Garachico.


Bloggfærslur 15. febrúar 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband