3.12.2011 | 23:12
1552 - Kidson Jack
Gamla myndin.
Hafdís Rósa Sæmundsdóttir að koma úr langferð.
Fréttir af könnunum Capacent á fylgi flokka eru rangar. Fylgi flokka er nærri helmingi minna í könnununum en gefið er upp í fréttum. Hinar háu fylgistölur fást með því að draga þá frá, sem ekki svara og eru óákveðnir. Þeir munu að meðaltali kjósa öðruvísi en meðaltal hinna, sem afstöðu taka.
Segir Jónas Kristjánsson á bloggi sínu. Að þeir sem ekki gefa upp skoðun sína kjósi eins og hinir er líklegt en alls ekki öruggt.
Svarhalinn við Síonistabloggið hjá mér er alltaf að lengjast, en ég fylgist samt með honum. Í mínum huga yfirskyggir þetta mál ekki öll önnur. Skrif um fólk eru alltaf varasöm. Og að skrifa fyrir heimsóknir eða athugasemdir er líka varasamt. Oftast er engin leið að sjá fyrir viðbrögð annarra. Að einbeita sér að því að skrifa um pólitísk mál sem fjallað er um í helstu fjömiðlum landsins finnst mér of takmarkandi. Þessvegna skrifa ég um allan fjárann.
Nú er ég eins og nývaknaður kettlingur, búinn að fara í bað og alles. Það er of lummó að segja nýsleginn túskildingur Veit samt ekki hvað ég á að gera við þetta kettlingshugarfar. Kannski ég fari bara út að leika mér.
Litlum sögum fer af Occupy-hreyfingunni um þessar mundir, nema hvað það er alltaf verið að handtaka fólk sem mótmælir. Sennilega er dálítið hættulegt að mótmæla of mikið. En veðrið er gott. A.m.k. svona séð útum gluggann.
Hef undanfarið verið að lesa bækur eftir Peter Kidson og Róbert Jack. Ég er ekki laus við það frekar en aðrir að hafa áhuga á því hvað útlendingar hugsa um okkur Íslendinga. Man eftir að ég tók einhverju sinni viðtal við Róbert Jack fyrir vídeófélagið í Borgarnesi. Þá var hann held ég fluttur á Vatnsnesið. Hann var ánægður með viðtalið og mest held ég að það hafi verið vegna þess að ég leyfði honum að tala um það sem hann langaði til. Það var mest um fótbolta í Skotlandi fyrir langa löngu. Eflaust áhugavert fyrir suma.
Kópavogur og Kosovo eru ekkert ákaflega ólík orð. Lítil frænka konunnar minnar kom stundum færandi hendi með ömmu sinni fyrir nokkrum árum því hún heyrði oft minnst á Kosovo í fréttum og vorkenndi okkur að eiga heima á þessum hræðilega stað.
Guðmundur Steingrímsson og Besti flokkurinn eru að undirbúa framboð í næstu alþingiskosningum að sögn Morgunblaðsins. Hugsanlega er markaðssetningin rétt hjá þeim. Alveg eða að mestu leyti á samt eftir að sjá hvernig varan er. Stjórn Besta flokksins á Reykjavíkurborg er kannski bara æfing. Það er samt ekki víst að það sama eigi við um landsmálin og borgarmálefnin. Ingibjörg Sólrún flaskaði illilega á því.
Þreyttir pokar og þreyttur bekkur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.12.2011 | 06:47
1551 - Um bíla
Gamla myndin.
Systkinin Hanna Rósa Ragnarsdóttir og Ómar Ragnarsson.
Enn er haldið áfram að athugasemdast við blogg mitt númer 1549. Kann heldur illa við það en vil þó ekki loka neinu eða flæma þá í burtu sem þar deila. Það sem þar er skrifað er mér og sennilega fleirum ansi illskiljanlegt. Ekki get ég þó séð að þeir valdi mér neinum skaða með því.
Fékk nokkuð langan svarhala í gær (fyrradag) útá að minnast á síonista í fyrirsögninni. Síonistinn sjálfur, dr. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, lét þó ekki mikið til sín heyra en aðrir þeim mun meira. Auðvitað má segja að ég hafi verið á svarhalaveiðum og það er ágætt að vita hvernig á að fara að því. Það er samt ekkert sérstakt unnið með því að hafa svarhalana sem lengsta. Það eru ákveðnir menn sem gjarnan skrifa mjög langar athugasemdir í svarhala og copypeista þá gjarnan. Mér virðist það einkum fara eftur umræðuefninu og þó einkum fyrirsögninni hve svarhalinn verður langur.
Svei mér þá ef vinsældir Moggabloggsins eru ekki að aukast aftur. Nú þarf orðið um 80 vikuheimsóknir til að komast á 400 listann. Gæti trúað að ég væri með aktívustu og elstu mönnum hér. Um gæðin get ég lítið sagt.
Ekki veit ég af hverju mér eru bílar og akstur ofarlega í huga núna. Kynslóðaskipti eru mjög greinileg þar. Pabbi hafði t.d. ekki bílpróf og keyrði aldrei bíl. Ég hef aftur á móti keyrt bíla frá 7. september 1960 eða eitthvað lengur ef dæma skal eftir ökuskírteininu.
Einu sinni hef ég farið upp í 140 km/klst á bíl en aldrei hraðar svo ég muni. Í gamla daga var það einfaldlega vegna þess að bílarnir komust ekki eins hratt og maður vildi. Svo voru allir vegir malarvegir þá og akstur yfir 120 km/klst talsvert varasamur. Á þvottabrettum var annaðhvort að lúsast á svona 30 km/klst eða fara yfir 80 km/klst því þá flaug bíllinn oftast yfir holurnar.
Í eitt skipti man ég eftir að hafa lent á hálkubletti og flogið útaf. Var mest hissa á hve fljótt þetta var að gerast. Sem betur fór lenti ég í skafli og næsti bíll dró mig upp. Ætli ég hafi ekki svona fjórum sinnum lent í árekstrum og oft í næstum því árekstrum. Eitt slíkt tilvik er mér mun minnisstæðara en árekstrarnir því ef mér hefði ekki tekist að forðast árekstur í það skipti hefði getað farið mjög illa.
Fyrir nokkrum árum tókst mér með mikilli snilld að læsa bíllykilinn minn inni í bílnum þegar ég var að erindast niðri í bæ. Það á samt að vera nánast ómögulegt. Þar sem ég vissi af aukalykli heima ákvað ég að taka bara strætó og sækja hann. Þegar ég kom á Hlemm fór ég inn í vagn sem mér fannst líklegur til að fara í Kópavog og spurði vagnstjórnann hvort hann færi þangað. Aumingja maðurinn skildi greinilega ekki orð í íslensku en svolítið í ensku svo ég komst fljólega að því að hann hafði ekki hugmynd um hvort hann væri á leiðinni til Kópavogs eða ekki. Þó hann væri að fara af stað gaf hann mér kost á að fara inn og spyrja hvort þessi tiltekni vagn færi til Kópavogs. Svo var og þegar við komum þangað fór ég út og vagnstjórinn sagði undrandi við mig: Is this Kópavogur?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)