18.12.2011 | 22:30
1566 - Jólabækurnar og ýmislegt fleira
Gamla myndin.
Talið frá vinstri: Bjarni, Benni, Kristín Þóra og Bjarni Harðarson. Allir strákarnir eru í eins peysum. Ætli mamma hafi ekki prjónað þær. Myndin er eflaust tekin á Vegamótum.
Einu sinni las ég oft jólabækurnar í desember. Ekki núna. Þá var ég verslunarstjóri á Vegamótum á Snæfellsnesi og ásamt mörgu öðru seldum við jólabækurnar að sjálfsögðu þar. Ég stundaði það að lesa eitthvað af bókunum strax og þær komu út, en gætti þess að sjálfsögðu að sellófanpappírinn skemmdist ekki og að ekki sæist neitt á bókunum. Þessu varð ég vitanlega að hætta þegar ég flutti frá Vegamótum og sá ekkert eftir því. Bókasöfnin hef ég stundað grimmt undanfarin ár. Auðvitað er ekki hægt að fá jólabækurnar þar strax í desember en það gerir ekki mikið til. Helstu gjafabækurnar og þær sem mest eru auglýstar eru hvort eð er oft ómerkilegustu bækurnar. Núorðið eru bækur gefnar út allt árið og oft er það svo að útkoma merkustu bókanna fer alveg framhjá manni.
Hæfileikar stjórnmálamanna hér á Íslandi virðast helst miðast við frammistöðuna í hálftíma hálfvitanna svokallaða. A.m.k. hefur ræðumennska og orðhengilsháttur þeirra afgerandi áhrif á vinsældirnar. Þannig er þetta víða. T.d. er það augljóst að til að ná árangri sem leiðtogi í Bretlandi þarf að hafa hæfileika til að tala í fyrirsögnum og skammast með miklum hávaða. Litlu máli skiptir hvað sagt er. Ef ritstjórar helstu blaðanna þar finna í því sem leiðtogarnir segja bærilegt fyrirsagnarefni er deginum bjargað.
Ekki er skipulagið á Moggablogginu uppá marga fiska. Sá um daginn að einhver bloggvinur minn hafði læst blogginu sínu til að aðrir væru ekki að hnýsast í það. Slíkt er í hæsta máta skiljanlegt. Engin ástæða er til að láta alla vera að lesa það sem maður skrifar ef maður kærir sig ekki um það. En í upphafi bloggsins sem birtist til vinstri á stjórnborðinu var byrjunina á blogginu samt að finna. Þessu þyrfti að ráða bót á.
Sé að ég hef af einhverjum ástæðum dottið útaf vinalista Vilhjálms Arnar Vilhjálmssonar á Moggablogginu. Hann hefur líklega hent mér út (aldrei hendi ég neinum út) og eflaust hefur honum ekki fundist það vera að ástæðulausu. Oft hef ég leyft mér að gagnrýna hann og í mörgum efnum verið hjartanlega ósammála honum. Fór líka framá að vingast við hann í gegnum Fornleif en hann hefur ekki sinnt því. Veit ósköp vel að Jón Valur Jensson hefur hent mér útaf vinalista sínum hér á Moggablogginu en mér er alveg sama um það. Vilhjálmur Örn á það hinsvegar til að vera ansi hugmyndaríkur í vali sínu á bloggefni. Í hina röndina er hann samt öfgamaður mikill.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
18.12.2011 | 02:59
1565 - Losaði þvag
Gamla myndin.
Hjálmar Sigurþórsson.
Hvað er það sem heldur mér sískrifandi og síbloggandi? Skil það bara ekki. Helst dettur mér í hug að það sé vegna þess að mér finnist þeir sem lesa bloggið mitt vera að láta í ljós einhverja aðdáun á þessum skrifum mínum með því að lesa það. Þó getur það varla verið því mér skín í rauninni ekkert gott af þessu. Þeir eru líka ekki svo margir sem þetta gera. Hvað getur það þá verið? Róar það mig að skrifa og er það mér ekkert verulegt átak? Það getur vel verið. Þessi tími sem vill til að ég lifi á er sérstakur að því leyti að framfarir á öllum sviðum eru hið eðlilega ástand hlutanna og allir hafa tækifæri til að láta ljós sitt skína. Jú, þeir allra bestu hafa kannski alltaf náð í gegn. Þ.e.a.s. komist í gegnum allar síurnar sem á vegi þeirra hafa orðið. Allir hinir hafa þurft að sætta sig við að vera gerðir afturreka. Hvorki komist lönd né strönd. Nú geta aftur á móti allir talað við alla. Internetið er mikil blessun. Með því gefst öllum kostur á að láta í sér heyra og samskiptin geta aukist manna á meðal eftir því sem hver vill.
Stórstyrjaldir hafa líka yfirgefið okkur og koma vonandi aldrei aftur. Í framtíðinni held ég að tuttugustu aldarinnar verði minnst fyrir heimsstyrjaldirnar tvær, en eftir þá síðari má segja að samfellt blómatímabil hafi ríkt á jörðinni. Alls ekki án undantekninga samt. Sumir halda áfram að eiga um sárt að binda þrátt fyrir allt. Hlýnun jarðarinnar og samspil mannskepnunnar við náttúruna koma e.t.v. til með að einkenna þá öld sem nú er nýhafin. Þó margir séu svartsýnir er samt engin ástæða til að örvænta. Lausnir á flestum vanda finnast á endanum.
Hann stóð uppi á húsþaki og losaði þvag yfir fólkið. Eitthvað á þessa leið var sagt í víðlesnu vefriti. Meig hann ekki bara yfir það? Var hann virkilega með kopp þarna uppi og skvetti úr honum? Er tepruskapurinn og pólitíska rétthugsunin að gera útaf við fólk? Er virkilega klám að segja að einhver hafi migið eða pissað yfir fólk? Skil þetta ekki. Klámbylgjan ógurlega er að gera útaf við alla. Það er bókstaflega þannig hjá sumum að ekkert virðist vera mikilvægara en koma í veg fyrir alla nekt og allt kynlíf. Sá áðan ágætan pistil um þetta eftir Evu Hauksdóttur. Hún var m.a.að bera saman þær ægilegu og hroðalegu nauðganir sem klámvæðingin kallar yfir okkur á Vesturlöndum og þær þægilegu og ánægjulegu nauðganir sem eiga sér stað annars staðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)