6.11.2011 | 23:36
1524 - Var Fischer frægastur Íslendinga
Því hefur oft verið haldið fram að fleiri bækur hafi verið skrifaðar um skák en nokkra aðra íþrótt. Þetta kann vel að vera rétt. Nýlega sá ég blaðagrein (sem líklega var skrifuð árið 2005) eftir Edward Winter þar sem saman voru teknar og taldar upp þær bækur sem hann vissi að höfðu verið gefnar út og skrifaðar um Bobby Fischer eingöngu. Þær voru 73. Þýðingar held ég að hann hafi alls ekki tekið með. Sumar bækurnar voru í tveimur eða fleiri bindum og í fljótu bragði sýndist mér hann eingöngu vera að fjalla um bækur á ensku og þýsku.
Robert James Fischer var Íslendingur þegar hann dó árið 2008. Ef til vill hafa ekki fleiri bækur verið skrifaðar um neinn Íslending í lifanda lífi en hann.
Ekkert varir að eilífu. Ekki einu sinni eilífðin sjálf. Ef þetta er speki þá er ég illa svikinn. Mér finnst þetta vera prump og orðhengilsháttur. Þverstæður tilverunnar eru svo margar að ekki hefur neitt gildi að rekast á eina og eina. Lífið sjálft er ein þverstæða og dauðinn líka. Stundum er hægt að nálgast sannleikann með þverstæðum þó ótrúlegt sé. Svo mikið getur myrkrið orðið að það verði ljós og ljósið svo mikið að það verði myrkur.
Margt er mannanna bölið
og misjafnt drukkið ölið.
Segir í eldgömlu heimsósómakvæði. Heimsósóminn er mikill núna. Hann er t.d. að gera Grikkjum grikk akkúrat eins og er. Fjármálakerfi Vesturlanda hefur lent á glapstigum og er fjarri því að veita mönnum þá velsæld og þann unað sem það á að gera. Siðmenntaður er sá maður einn sem getur verið iðjulaus án þess að valda sjálfum sér tjóni. Þrátt fyrir þennan galla fjármálakerfisins fer siðmenning heimsins vaxandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.11.2011 | 00:23
1523 - Barnaskóli Íslands
Allir hafa einhverja galla. Eflaust ég sjálfur líka. Heldur er það þó ólíklegt. Mér finnst a.m.k. gallar annarra miklu meira áberandi. Maður verður bara að sætta sig við þá. Af hverju geta ekki allir hugsað eins og ég? Mér finnst það stór galli. Fáir hugsa jafn skýrt. En svona er lífið. Eintóm vonbrigði. Verður maður ekki bara að reyna að gera gott úr þeim. Það tekur því ekki að vera að gera sér rellu út af ófullkomleika annarra. Lífið er of dýrmætt til þess.
Sálfræðilega séð er flest á niðurleið núna. Einkum hér á Norðurhjaranum. Veturinn nálgast og sólin er farin í frí. Sýnir sig þó í mýflugumynd suma daga. Næstum aldrei kemur þó almennileg hríð og snjór sem talandi er um hér í Reykjavíkinni. Sumrin eru þó ekkert til að fussa yfir. Sólskin og hiti daginn langan. Best væri að skríða í híði í nóvemberbyrjun og koma ekki úr því fyrr en í maí. Stefni að því. Á ég samt að blogga úr híðinu? Já, ætli það sé ekki best.
Síðastliðið sumar var ég eins og margir fleiri að flækjast um á Akureyri. Þar sá ég gamalt og virðulegt hús á góðum stað og utan á því stóð að það héti Rósenborg. Það fannst mér af einhverjum ástæðum lygilegt. Fannst einhvern veginn að svona virðulegt gamalt hús ætti að heita allt annað. Ef það þyrfti endilega að heita eitthvað. Man að ég tók mynd af þessu húsi. (sjá neðst)
Nú sé ég á fésbókinni að Ragnar Hólm kallar þetta hús Barnaskóla Íslands. Það finnst mér miklu skárra nafn en Rósenborg.
Nú er ég óðum að komast í mitt gamla form að því leyti að ég blogga á hverjum degi, eða svotil. Það er samt að mestu ómeðvitað. Bara vani satt að segja. Mér finnst þægilegt að fílósófera við tölvuna. Sumir vilja helst hafa pappír og blýant fyrir framan sig við slíka iðju en mér finnst lyklaborðið betra. Svo les ég það yfir sem ég hef krotað á blaðið. Felli út og lagfæri og þegar það er orðið hæfilega langt, ég sæmilega ánægður með það og klukkan hæfilega margt þá hendi ég því á Moggabloggið og set inn myndir sem ég hef áður öpplódað.
Það kitlar hégómagirnd mína að heyra það stöku sinnum að fólk lesi bloggin mín reglulega. Einu slíku atviki lenti ég í nýlega. Auðvitað er þetta mikið hrós. Ég kann samt ekki að taka því og fer allur í kleinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)