29.11.2011 | 23:16
1548 - Jól, Palestína o.fl.
Gamla myndin.
Þessi mynd hlýtur að vera tekin í Löngubrekku í Kópavogi. Hvað Jón Kristinn og Bjössi eru að ræða um þarna veit ég þó ekki.
Segja má að stefni í hanaslag milli ríkisendurskoðanda Sveins Arasonar og ríkislögreglustjóra Haraldar Johannessen. Allt bendir til að ríkislögreglustjóri tapi þeim slag. Þó getur þetta mál endað fyrir dómi og hugsanlega haft áhrif á ríkisstjórnina. Þetta mál fjallar um að ríkislögreglustjórni afhendi ríkisendurskoðanda gögn um innkaup þess fyrrnefnda á ákveðnu tímabili. Hugsanlega skiptir mestu máli hvernig túlkuð er sú neyð sem lögreglan bjó við, eða taldi sig búa við, þegar ákvörðun um kaupin var tekin.
Þegar ég var lítill var þessi vísa mjög vinsæl:
Þó desember sé dimmur
þá dýrleg á hann Jól.
Með honum endar árið
og aftur hækkar sól.
Ekki veit ég eftir hvern þessi vísa er. Kannski er þetta úr ljóði um alla mánuðina. Líka voru vinsælar vísur um gömlu mánuðina og t.d. rámar mig í vísu um Góu þar sem sagt var að hún gengi á éljapilsi síðu.
Upphaf Gilsbakkaþulu var einnig mjög frægt og jafnvel þulan öll sem ég held að sé svona tíu til tólf vísur. Mig minnir að fyrsta vísan sé svona:
Kátt er á jólunum, koma þau senn,
upp munu þá líta Gilsbakkamenn,
upp munu þeir líta og undra það mest,
að úti sjái þeir stúlku og blesóttan hest,
úti sjái þeir stúlku, sem umtöluð varð:
"Það sé ég hér ríður hún Guðrún mín í garð,
það sé ég hér ríður hún Guðrún mín heim."
Sagt er að þulan sé eftir einhvern Kolbein Þorsteinsson (Google.com) en engin deili veit ég á honum.
Það eru einkum þrjú mál sem núverandi ríkisstjórn þarf að koma í höfn áður en hún gefst upp. Þau eru: ESB, kvótinn og stjórnarskráin. Vaxandi líkur eru á að hún komi alls ekki öllum þessum málum í gegn fyrir næstu kosningar. Jafnvel bara einu þeirra. Mestar líkur eru á að það verði kvótamálið, jafnvel þó LÍÚ, sjálfstæðisflokkurinn og hugsanlega sjávarútvegsráðherrann sjálfur standi mjög ákveðið gegn öllum breytingum þar. Alls ekki er þó líklegt að gjafakvótinn eða leyfið til framsals veiðiheimilda verði með öllu afnumið. Miklu líklegra er að enn verði reynt að lappa upp á kerfið. Þjóðin er samt einhuga um að umbóta sé þörf á kvótakerfinu.
Í dag var samþykkt á alþingi tillaga um viðurkenningu á sjálfstæði Palestínu. Sú tillaga var samþykkt með 38 atkvæðum. Sjálfstæðismenn 13 að tölu sátu þó hjá og er skömm þeirra mikil.
Þetta eiga ökumenn að lesa og tileinka sér á hálfri sekúndu.
Bloggar | Breytt 30.11.2011 kl. 00:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
29.11.2011 | 03:31
1547 - Um víkinga, ríkisstjórn o.fl.
Gamla myndin.
Hvað vilt þú upp á dekk? Hryggjarliður úr hval til vinstri á myndinni.
Það er í tísku núna að spá ríkisstjórninni falli. Ekki geri ég það en minnist þess að ein eftirtektarverðustu ummælin í ævisögu Steingríms Hermannssonar voru eitthvað á þá leið að forsætisráðherra á hverjum tíma geti búist við því að fara úr einni krísunni í þá næstu. Jóhanna og Steingrímur hafa ekki farið varhluta af þessu og það er vegna þess sem ég held að ríkisstjórnin haldi velli núna ekkert síður en verið hefur. Stjórnarandstaðan ímyndar sér alltaf að nú sé loksins búið að fella ríkisstjórnina en samt tekst það ekki. Andstæðingar hennar eru að vísu ansi háværir og víst er meirihlutinn tæpur og jafnt ráðherrar sem aðrir gefnir fyrir að bera ágreining sinn á torg.
Ég var orðinn þrítugur þegar ég fór í fyrsta skipti til útlanda. Það var árið 1972. Við fórum þá í hringferð með Gullfossi og komumst lengst í suður til Hamborgar. Fyrst komum við til Dublinar á Írlandi og einn af fyrstu dögunum þar fórum við í ferðalag til Glendalough. Þar sáum við meðal annars allháan turn sem okkur var sagt að væri meira en þúsund ára gamall. Okkur var einnig sagt að í stað sements og steypu hefði verið notað uxablóð til að líma steinana saman. Við spurðum leiðsögumanninn einnig hvers vegna turninn hefði verið reistur.
Svar hans varð til þess að ég þurfti að endurskoða ýmsar hugmyndir mínar um Íslandssöguna en honum þótti spurningin greinilega óþörf mjög og sagði eitthvað á þessa leið:
Nú, það var til að sjá hvort víkingarnir væru að koma.
Fram að þessu hafði ég að sjálfsögðu litið á víkingana sem miklar hetjur og að hámarki hreystinnar hafi þeir náð þegar þeir fóru í víking til framandi landa. Nú skildi ég allt í einu að frá sjónarmiði annarra voru þeir verstu terroristar síns tíma. Jafnvel verri en Tyrkjaránsdjöflarnir voru mörg hundruð árum seinna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)