1528 - Klám

Scan556Gamla myndin.
Á þjóðhátíð.

Ellý Ármanns gerði það vinsælt á Moggablogginu forðum daga að klæmast svolítið. Held að þetta virki ennþá. Hef tekið eftir því að ef fyrirsögnin hjá mér er svolítið klámfengin þá fæ ég mun fleiri lesendur. En er það einhvers virði? Ég veit það svosem ekki. En ef margir lesa bloggið mitt fer varla hjá því að þeim fjölgi sem sjá hvílíkur afburðabloggari ég er. En svo gætu aftur á móti einhverjir sem eru vanir að lesa bloggið hætt því og þá er illa farið. Ég er nefnilega búinn að vera að byggja upp þennan lesendahóp síðan í árslok 2006. Hef jafnvel ekki látið Hrunið sjálft trufla mig að neinu ráði.

Um mig fitlar ununin
ástin kitlar sinnið.
Haltu um tittling mjúkan minn
með henni litlu þinni.

Þetta er lipurlega kveðið. Veit samt ekki eftir hvern þetta er. Þetta var lengi vel (og er jafnvel enn) ein af uppáhaldsklámvísunum mínum. Einu sinni kunni ég helling af þeim. Hugmynd væri að birta eina slíka í hverju bloggi. Nú, er þetta að verða eitthvert formúlublogg hjá mér?

Dómari getur ekki dæmt í máli vegna þess að lögin eru of óljós. Er það hlutverk dómara að ákveða hvernig lög eigi að vera? Mér finnst það ekki. Auðvitað eiga dómstólar að skera úr um hvort lög samræmist stjórnarskrá. Þarna þarf að vera hárfínt samspil á milli valdastofnana. Dómara getur þótt lög asnaleg, óljós, viðvaningsleg, klaufaleg, o.s.frv., en ef þau eru í samræmi við stjórnarskrá finnst mér að hann eigi að dæma eftir þeim engu að síður.

Einstaklingar þeir sem á alþingi sitja eru misjafnir. Þeirra hlutverk er samt sem áður að setja landinu lög sem landsmenn og dómarar eiga að fara eftir. Virðingarleysið fyrir alþingi má ekki ganga svo langt að almenningur og dómarar taki lögin í sínar eigin hendur. Þá er fátt eftir sem til bjargar getur orðið.

Aðferðin við skipun dómara er ef til vill gölluð. Ríkisstjórnin hefur hugsanlega ráðið þar of miklu og þeir þar með orðið of pólitískir. Virðingarleysið fyrir alþingi er alltof mikið. Ef virðingarleysið fyrir ríkisstjórninni og dómstólunum verður jafnmikið er hætta á ferðum.

Einhverskonar listi yfir misheppnuð mannvirki var til umfjöllunar í sjónvarpinu um daginn. Margt var þar gáfulega athugað en þó ekki allt. Landspítala- og Hringbrautarklúðrið hefði að mínum dómi átt að vera ofar á þessum lista. Háskólinn í Reykjavík átti ekki heima á listanum. Það er falleg bygging og í fallegu umhverfi. Byggingin fellur vel inn í umhverfið þó auðvitað hefði mátt nýta það í annað með góðum árangri. Helsti gallinn finnst mér hve bílastæðin þar eru gríðarlega stór og umfangsmikil, en hugsanlega má breyta því síðar.

Mikið getur Evran fallið. Samkvæmt sumum blöðum er fall hennar geigvænlegt og sífellt að aukast. Sennileg endar þetta með algjörum krónu-ósköpum. Ég er þó svo gamall að ég man vel eftir upphafi Evrunnar. Þá var gengið ákveðið það sama og dollars. Einhversstaðar þurfti að byrja. Held að hún sé þrátt fyrir allt fallið verðmeiri í dag en USA dollar.

Innbyggða klukkan fuglanna fer eftir birtunni. Á vorin sofa þeir bara í svona hálftíma en núna vakna þeir og byrja að syngja um svipað leyti og slokknar á götuljósunum. Kópavogur er gönguvænn kaupstaður. Ef gatnakerfið hér væri ekki eins og það er væri lítið gaman að fara í gönguferðir um byggð ból Kópavogs. Dalirnir hér um slóðir eru þó sums staðar eins og komið sé uppí sveit svo þangað má líka fara.

Svolítið áhugaverðar pælingar um framsóknarflokkinn voru í athugasemdum hjá mér í gær. Sigmundur Davíð virðist vera að fara á bakvið Sjálfstæðisflokkinn og komast hægra megin við hann. Þannig var flokkurinn ekki í gamla daga.

Hvort sem það er nefnd, stofnun, félag, einstaklingur eða eitthvað annað sem hefur átt að hafa með höndum gerð þessarar svonefndu „Þorláksbúðar“ í Skálholti er það alveg forkastanlegt að hafa látið Árna Johnsen sjá um málið.

IMG 7040Fasteign?


1527 - Sannleikanum verður hver sárreiðastur

Scan555Gamla myndin.
Lækjargata.

Hlustaði í gærkvöldi á endurtekið Kastljós. (Að hluta a.m.k.) Enn er verið að óskapast yfir biskupsmálinu. Ætlar þessu aldrei að linna? Af einhverjum ástæðum kýs kastljósfólkið að halda vitleysunni áfram. Ég er samt hættur þessu.

Fyrir þá sem ekki geta án einhverskonar klámumræðu verið er nú búið að vekja upp aftur deilur þeirra Davíðs Þórs Jónssonar og Maríu Lilju Þrastardóttur og reka hana (þ.e. Maríu) frá innihaldi.is sem er netmiðillinn sem allir óttast (eða eiga að óttast). Ég vil aftur á móti helst vera stikkfrí í þessari umferð.

Þá er nú skárra að ræða um Hrunið. Sú umræða snýst að vísu mest um hverjum það sé að kenna og af hverju það hafi dunið fyrr á okkur Íslendingum en öðrum og jafnvel af meiri krafti. Auðvitað komast menn ekki að neinni niðurstöðu um það, enda étur hver úr sínum pólitíska poka. Vitræn umræða slæðist þó öðru hvoru með og sumt af henni er býsna fróðlegt.

Occupy Wall Street umræðan virðist hafa náð tökum á Herði Torfasyni tónlistarmanni sem startaði búsáhaldabyltingunni á sínum tíma. Hver veit nema sú hreyfing nái smám saman tökum á fleiri og fleiri.

Sá sem er orðinn svolítið aldraður horfir til loka á bunurnar tvær sem í bollann fara frá Senseo-kaffivélinni sinni, en sá yngri fer að gera eitthvað annað og gleymir kaffinu. Þetta datt mér í hug áðan þegar ég fór og fékk mér kaffi. Og þó eflaust mætti teygja lopann eitthvað um þetta þá er erfitt að hafa málsgreinina öllu lengri.

„Sannleikanum verður hver sárreiðastur.“ Þetta gamla spakmæli datt mér að sjálfsögðu í hug þegar ég sá umfjöllun framsóknarflokksins um grein Eiríks Bergmanns í Fréttatímanum. Að einu leyti er ég þó sammála því sem haldið er fram af talsmanni flokksins. Uppsetningin er þannig að vel er hægt að álíta að Sigmundur Davið hafi sagt að framsóknarflokkurinn sé svona hallærislegur. Seint mundi hann þó viðurkenna það. Í greinargerð framsóknarflokksins er látið að því liggja að allir flokkar sem ekki tilheyra „fjórflokknum“ svonefnda séu öfgaflokkar. Það finnst mér ansi bratt og gæti trúað að einhverjir muni mótmæla því.

„Við erum að vinna okkar verk og erum að koma í veg fyrir að hlutir, sem búið er að setja mikla peninga í, skemmist ekki,“ bætir Árni við.

Segir í frétt mbl.is um Þorláksbúðarmálið. Er Árni Johnsen svona vitlaus eða blaðamaðurinn? Nei sinnum nei er sama og já, er þetta ekki kennt í barnaskóla?

Greddan hafði góð áhrif að því leyti að lesendur urðu fleiri en venjulega. Kannski maður verði mun vinsælli bloggari ef maður gætir þess að hafa fyrirsögnina yfirleitt svolítið klámfengna. Segi bara svona. Sem venjulega fyrirsögnina síðast af öllu og stundum er samband hennar við meginmálið ekki alveg ljóst.

IMG 7039Sko. Byko og Húsasmiðjan geta unnið saman.


Bloggfærslur 10. nóvember 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband