1505 - Er vit í Vaðlaheiðargöngum?

209Gamla myndin
er af Kristni Jóni Kristjánssyni og Gunnari Hallgrímssyni

Nú er ég að hugsa um að taka þann sið upp aftur a.m.k. um tíma að birta bæði gamlar myndir og nýjar á hverjum degi. Ég er nefnilega búinn að undirbúa nokkrar gamlar myndir fyrir birtingu. Ekki er víst að mikið framhald verði á þessari stefnu en þá verður bara að taka því. Varla býst ég við að lesendum mínum fækki þó ég birti nokkrar gamlar myndir.

Er vit í Vaðlaheiðargöngum? Ég held ekki. Það er kannski ekki að marka. Ég var á móti brúnni á Óseyrarnesi á sínum tíma og andvígur Héðinsfjarðargöngum. Var samt hrifinn af Siglufirði þegar ég kom þangað síðastliðið sumar, en þangað hefði ég líklega ekki farið ef Héðinsfjarðargöngin hefðu ekki verið til staðar.

Það eru samt Vaðlaheiðargöngin sem eru mál málanna í dag. Hringvegurinn styttist um heila 16 kílómetra við gerð þeirra. Sumum finnst það alls ekki mikið, miðað við kostnaðinn. Aðalspurningin er hve mikið þau verða notuð. Það kann að ráðast að nokkru af því hve dýrt verður að fara um þau. Sagt er að Víkurskarðsvegur sé ágætisvegur mestan hluta ársins. Fari vetur harðnandi getur verið að Vaðlaheiðargöng borgi sig upp á tiltölulega stuttum tíma. Annars er ég hræddur um að þau verði minnisvarði um átakanlega bjartsýni Íslendinga í vegagerð. Mörg önnur verkefni eru brýnni.

Eru bloggin mín að styttast? Ekki er ég frá því. Mér finnst það bara góðs viti. Það er ekki hægt að blogga endalaust um allt og ekkert. Erfitt á ég samt með að hætta að blogga. Hvíldin eða bloggleysið, sem ég boðaði fyrir nokkru, kemur einkum fram í því, að ég tek mér bloggfrí öðru hvoru. Mér finnst ég ekki lengur vera skuldbundinn sjálfum mér og öðrum til að blogga á hverjum degi. Samt finnst mér ég þurfa að blogga. Þetta er ávani. Mér finnst ég losna betur við allskyns hugsanir með því að blogga um þær. Þegar ég er búinn að senda þær upp á bloggið get ég farið að hugsa um eitthvað annað. Svo lauma ég líka myndum með.

Litlum sögum fer af tímamótamótmælum þeim sem fram fóru í Reykjavík síðastliðinn laugardag. Það er skaði. Ekki trúi ég því að Íslendingar séu almennt búnir að gleyma góðærinu sem logið var að okkur að yrði endalaust. Margir trúðu því og töpuðu aleigunni. Sumir voru efins og gátu kannski bjargað einhverju. Fáeinir komust vel frá þessu og lifa nú í vellystingum.

Líklega verður reynt aftur um næstu helgi að mótmæla sem ákafast. Kannski tekst betur til þegar fólk fer að venjast þessu. Spyrjið bara Hörð Torfason. Það verður að kenna fólki átið og það getur tekið svolítinn tíma.

IMG 6867

Frá Hveragerði.


Bloggfærslur 17. október 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband