1490 - Skrílslæti frá hægri

Ekki er vafi á því að skrílslætin við Alþingishúsið í dag er vel hægt að kalla skrílslæti frá hægri. Það sem mönnum er eflaust ferskast í minni er búsáhaldabyltingin sjálf og hana má með svipuðum rétti kalla skrílslæti frá vinstri.

Ofbeldi af því tagi sem haft var í frammi þá og nú er alls ekki víst að þjóni þeim málstað sem mótmælendur telja sig vera að styðja. Ríkisstjórnin féll að vísu í kjölfar búsáhaldabyltingarinnar en mótmælin í dag gætu alveg eins styrkt núverandi ríkisstjórn í sessi. Það eru einfaldlega flokkarnir og fámennar stofnanir þeirra sem ráða þessu. Þetta er það kerfi sem við höfum komið upp og við það situr. Við getum að vísu kosið það í burtu en ekki er víst að við gerum það.

Stuðningsmenn ESB virðast sumir vera að missa trúna á að núverandi viðræður leiði til aðildar. Það kann að vera rétt mat að því leyti að núverandi stjórnarmunstur sé ekki hagstætt aðild. Þess vegna má gera ráð fyrir að alþingiskosningar verði á undan þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild. Óvíst er með öllu hvernig þær alþingiskosningar muni fara. Trúlegt er að ný framboð komi fram.

Fjórflokkurinn óttast mjög um sinn hag og mun eflaust gera einhverjar tilraunir til að komast hjá kosningum. Talsverð breyting er að verða á fylgi hans. Skoðanakannanir geta auðvitað ekki mælt fylgi framboða sem ekki hafa ennþá orðið til.

Undarlegt er að ekki er mikið rætt um neyðarlögin sem gert er ráð fyrir að hæstaréttur fjalli um fljótlega. Ég er svo einkennilega innréttaður að ég hef alla tíð haft illan bifur á þessum svonefndu neyðarlögum og á fastlega von á að hæstiréttur dæmi þau ólögleg og í andstöðu við stjórnarskrána.

Afleiðingar þess gætu orðið miklar. Flestir virðast leiða hjá sér að horfa á það ástand sem þá mundi skapast. Einfaldlega vegna þess að slíkt er svo óþægilegt. Vitanlega er ég líka í þeim hópi sem vonar að neyðarlögin haldi.

IMG 6693Umferðarmannvirki.


Bloggfærslur 1. október 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband