3.1.2011 | 22:13
1251 - Ástþór, ESB, Icesave o.fl.
Veit ekki af hverju það er en mér finnst ESB-andstæðingar vera orðljótari en þeir sem fylgjandi eru aðild. Það er vont að toppa löngu áður en þörf er á. Það finna greyin núna og hafa hátt. Kannski finnst mér þetta vegna þess að ég les meira af Moggabloggum en öðrum bloggum. Vissulega hafa ESB-andstæðingar haft vinninginn undanfarið í skoðanakönnunum en það er að breytast. Finn samt að þetta ESB-mál er miklu líklegra sem framtíðardeilumál en flest önnur. Líklega á ríkisstjórnin eftir að springa á ESB. Sjálfstæðisflokkurinn og jafnvel fleiri aðilar fjórflokksins eiga eftir að lenda í miklum vandræðum útaf þessu máli.
Icesave verður alveg barn alþingis. Ríkisstjórnin þarf engar áhyggjur að hafa af því máli. Verði samþykkt á þinginu að borga Bretum og Hollendingum kemur til kasta ÓRG. Hann er búinn að blanda sér svo mikið í málið að hann getur ekki bara hætt því allt í einu. Ábyrgðin liggur hjá honum.
Hef nú lokið við að lesa það sem mér hugnast úr bókinni eftir Sigurð A. Magnússon og þarf að fara að skila henni ásamt öðrum bókum. Sigurður er orðmargur en ágætur penni samt. Farinn að gamlast nokkuð og sjálfhælinn með afbrigðum. Áhugaverður samt sem löngum fyrr. Man vel eftir hvað mér fannst Samvinnan taka miklum stakkaskiptum þegar hann tók við henni.
Nú er búið að handataka Ástþór Magnússon og sleppa reyndar aftur. Allt það leikrit er meðal annars til þess að auglýsa vefinn sorprit.com" Vanmetum samt ekki Ástþór. Hann veit hvað hann vill og kann að koma orðum að hlutunum. Sumir segja hann bilaðan en hann á samt rétt á að láta í sér heyra.
Tjáningarfrelsi er ekki hátt skrifað hjá flestum fjölmiðlum. T.d. virðist flestum sama þó alþjóðleg stórfyrirtæki drepi WikiLeaks.
Viðsjár kunna að fara vaxandi hér á landi á næstunni. Þó á ég ekki von á stórtíðindum. Til þess eru Íslendingar of friðsamir. Byltingar og æsingur leysa engan vanda. Þó kann sú tíð að koma að þolinmæði einhverra bresti.
Ég er að æfa mig í að skrifa lítið en á erfitt með það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.1.2011 | 00:10
1250 - Alþingismenn og bloggarar
Ég legg nokkuð að jöfnu hávaða þann sem er í þingmönnum flestum eða öllum í ræðustól alþingis og bloggurum langflestum. Þetta eru einfaldlega málfundatilburðir og alls ekki fólki til sóma að láta svona. Líklega vinna þingmenn miklu betur þar sem fjölmiðlaljósið skín ekki eins skært á þá og í venjulegum umræðum. Þessu hefur oft verið haldið fram í blaðagreinum og er sennilega rétt.
Bloggarar langflestir eru líka ágætisfólk þó það missi sig svolítið í predikunarstól bloggsins. Ómar Ragnarsson er einn af þeim fáu sem ég hef orðið var við að stilli sig um stóru orðin. Flestir aðrir virðast halda að því orðljótari sem þeir eru þeim mun meira sé að marka þá.
Virðing alþingis gæti tekið framförum ef hætt væri útsendingum frá þingfundum eða teknar upp útsendingar frá nefndarfundum einnig. Mæli frekar með því síðarnefnda því allt laumuspil er af hinu illa.
Var eitthvað að kvarta yfir því um daginn að fésbókin væri ekki eins og bloggið. Hún er nauðsynleg samt því auðvitað nenna ekki allir að blogga. Margt er hægt að gera á fésbókinni sem ekki er hægt að gera annars staðar. Samt þarf að byrja á því að taka tölvur í sátt og ekki gera allir það. Það kjósa ekki einu sinni allir.
Tók dálítinn þátt í skáklífi forðum daga. Þá vildi þaðhenda að menn urðu bridsinum að bráð. Við því var ekkert að gera. Svipað finnst mér vera með fésbókina. Sumir sem voru góðir í blogginu urðu henni að bráð. Annars er ég að mestu hættur að lesa blogg annarra og er það skaði því þar er mörg gullkornin að finna. Jafnvel fleiri en í svokölluðum fjölmiðlum sem gætu verið miklu betri en þeir eru.
Dreymdi í nótt sem leið að djöflast var á dyrabjöllunni og ég einn heima. Berfættur. Gekk illa að komast í sokkana. Komst ekki nema með góðu móti nema í annan og fór þannig til dyra. Þar voru þá tveir menn frá Orkuveitunni til að rukka mig og sögðust gefa mér einhvern ákveðinn frest til að gera upp mín mál. Ekki voru þetta neinir handrukkarar. Þegar þeir voru farnir skoðaði ég bréfið sem þeir skildu eftir en gat ómögulega komist að því hve mikið ég skuldaði þessu góða fyrirtæki og þótti það slæmt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)