1133 - Málfarslöggur og Villi í Köben

Ekki er ég hræddur við málfarslöggur. Ég er kominn á þann aldur að mér er skítsama þó einhverjir finni að málfari mínu. Ég nota slettur hikstalaust ef mér finnst fara vel á því og það vera réttlætanlegt. Orðalag og annað reyni ég þó að hafa sem íslenskulegast. 

Mér finnst sá siður að ekki megi gagnrýna réttritun og orðalag á Netinu vera eyðileggjandi fyrir tunguna. Mikið vildi ég að einhverjir vildu gagnrýna mig fyrir málfar ef tilefni er til og ég veit að það er oft. Mönnum finnst jafnan að þeir hafi ekki efni á að gagnrýna slíkt ef þeir eru ekkert betri sjálfir en það er misskilningur. Framþróun verður einmitt með skoðanaskiptum.

Villi í Köben er alltaf skemmtilegur. Minnir bloggvini sína ítarlega (fimm sinnum) á síðustu bloggfærslu sína. Verst að geta aldrei vitað hvort honum er alvara eða ekki. Sennilega er þessi islamófóbía hans tómt grín. Nenni samt ekki að ganga úr skugga um það. Villa langar greinilega að gera grín að Vigdísi fyrrum forseta en kemst ekki á almennilegt flug þar. Úr fjölmiðlafarsanum grimmúðlega árið 2004 er mér minnisstæðust ein vísa sem ég get ómögulega munað eftir hvern er.

Vanhæfur kom hann að verkinu.
Vigdís plantaði lerkinu.
Bónus hann á
eins og hvert barn má sjá.
Það er mynd af honum í merkinu.

Svo man ég líka vel eftir því þegar starfsmenn Stöðvar 2 settu þessa fínu banana við Alþingishússhurðina frægu í stað þess að éta þá.

Gísli Baldvinsson (líklega sonur Jóns Baldvins) skrifar blogg-grein á Eyjuna sem hann nefnir „Þumlgefendur Eyjunnar." Mér þykir greinin um margt fróðleg en þó finnst mér mörgum spurningum ósvarað um þetta mál og margt sem Eyjubloggi viðkemur og fréttaflutningi þar.

Margir ágætir bloggarar hafa horfið af Moggablogginu og Eyjan tekið þeim fagnandi. Þessir bloggarar hafa oft haft mörg orð um Davíð Oddsson og blogg-lokanir á Moggablogginu. Hugsanlega hafa einhverjir þeirra skrifað blogg um reynslu sína af skiptunum og breytingunni. Ég hef samt ekki rekist á marktæka úttekt á slíkum flutningum.

Útbreiðsla og vinsældir eyjunnar.is og mbl.is skipta auðvitað máli þarna sem og þróunin í því efni. Margt fleira kemur og við sögu. Kannanir á þessu sviði gætu verið forvitnilegar og vel getur verið að þær hafi verið gerðar.

IMG 3131Mér dettur í hug danska glósan: (eða var það bókartitill?) „Fremtiden er allerede begyndt," þegar ég sé þessa mynd.


Bloggfærslur 8. september 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband