25.9.2010 | 00:08
1150 - Blogg um blogg
Þrennt er það sem vinsælast er í bloggheimum (Moggabloggsheimum) Fyrst er að telja það sem vinsælast er en það er að blogga nógu oft á hverjum degi og tengja blogginn jafnan við vinsælar og mjöglesnar fréttir á mbl.is. Þetta gefst oft allvel en fáir nenna að standa í þessu lengi.
Trúmál kalla ævinlega á vissar vinsældir. Margir hafa unun af því að athugasemdast við svoleiðis blogg. Vinsældirnar geta þó brugðist því það er aðallega viss hópur ( og kannski ekki svo ýkja stór) sem eltir svona blogg.
Það er líka vinsælt að blogga um hrunið. Best er að þykjast vera hagfræðingur eða eitthvað þessháttar og taka stórt uppí sig. Tala mikið um hvað aðrir séu vitlausir og hve auðvelt hafi verið fyrir snillinga eins og þá sjálfa að sjá alla hluti fyrir sem hrunið snerta. Þetta er alltaf jafnvinsælt því fjöldi fólks bíður eftir sannleikanum stóra um þetta mál. Gott ef ekki er von á Messíasi.
Hér er til dæmis ágætt dæmi um hrunblogg:
Bílar geta verið t.d. bifreiðar eða sjálfrennireiðar. Skruggukerrur, kaggar, fóstureyðingartæki, druslur, statussymból og margt fleira. Viltu færa þessa druslu þarna," heyrði ég kallað hér fyrir utan rétt áðan. Eigandanum hefur sennilega sárnað. Enginn vill eiga bíldruslu. Eru bíldruslur annars ekki orðnar stórum færri í umferðinni uppá síðkastið en áður var?
Stærri hús, betri bílar, malbikaðir vegir, fleiri kaffihús og matsölustaðir eru allt saman ávöxtur fjárfestingarfyllirísins sem hratt bankahruninu af stað. Og nú verðum við að borga fyrir þetta alltsaman hvort sem okkur líkar betur eða verr. Auðvitað líkar okkur það aðallega verr því útrásarvíkingarnir voru þurftafrekir í öllu sínu gulláti og komu jafnvel stolnum peningum haganlega fyrir í hinum fjölbreytilegustu skattaskjólum. Svo er að minnsta kosti sagt.
Sorgarbloggin voru líka einu sinni vinsæl en þær vinsældir hafa dvínað dálítið í seinni tíð. Gott ef þau eru ekki komin úr tísku. Þeir sem í erfiðleikum eiga og glíma við illvíga sjúkdóma ættu samt ekki að láta þessa aðferð alveg afskiptalausa.
Og smámálfarshorn eru ómissandi í vinsældasókninni. Hér er til dæmis smáklausa úr hægrimannaboðskap frá AMX: Hugsjónir og hugmyndir sjálfstæðisstefnunnar eiga því undir vök að verjast."
Undir vök þær verjast best
og vökvun þurfa enga.
Af þeim sökum svíkja flest
og sjaldan ná að menga.
Já, það er gaman að blogga um blogg þó Gísli hlaupari kalli það ómerkilega iðju. Hvers vegna skyldi maður ekki blogga um blogg? Hvað er merkilegra en blogg? Er ekki sjálfsagt að blogga um það sem merkilegast er?
Það er skrýtinn skolli
að skjálfa af kuldahrolli,
en verða þó að vita
veröld fulla af hita.
Einu sinni orti ég
afar góða vísu.
En þegar kom að botninum
lenti ég í óttalegri krísu.
Var að enda við að setja saman eina flippaða sögu. Hún er svona:
Þegar Guð kíkti niður um gatið í skýjunum sá hann hvar róninn var í þann mund að taka hundinn upp á skottinu. Þetta gengur ekki. Ég verð að gera eitthvað í þessu," hugsaði Guð með sér. Kallaði í Þór og bað hann að senda eldingu í rassinn á rónanum. Þá varð til vísan fræga:
Farðu í rass og rófu
ríddu grárri tófu.
Af einhverjum ástæðum man ég ekki botninn en það gerir ekkert til. Gott ef það mundi ekki skemma söguna ef ég hefði hann á takteinum. Nú, ég var semsagt staddur þar sem Guð kallaði á Þór. Í þessu er náttúrlega mótsögn en það vill svo til að Guð er Ásatrúar. Tölum samt ekki meira um það. Snúum okkur að hundinum sem var næstum tekinn upp á skottinu. Auðvitað leið honum ekki vel útaf þessu öllu saman. Það var samt ekki um annað að gera en að láta sem ekkert væri. Hann beit saman skoltunum og bölvaði í hljóði.
Róninn sem fékk rafmagnið í rassinn heitir Rögnvaldur Rögnvaldsson og er búinn að vera fullur í tvo mánuði. Ástæðan fyrir því að hann ætlaði að taka Snata upp á rófunni var sú að hann hlýddi honum ekki þegar hann sagði honum að fara og ná í flösku fyrir sig. Horfði bara á hann með spurnaraugum og lét eins og hann skildi ekki neitt.
Þetta gæti svosem verið ágætis byrjun á sögu. Hægt er að halda áfram með frásögnina af rónanum eða halda sig við hundinn. Auðvitað má líka halda áfram með hugmyndina um Guð (með stórum staf) sem kallar á Þór þegar hann þarf á hjálp að halda. Nenni samt ekki að fara útí guðspekilegar pælingar svo líklega vel ég annaðhvort hundinn eða rónann. Einn möguleiki enn er að hætta bara núna og hafa söguna ekki lengri. Held ég taki þá leið útúr þessari vitleysu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)