1147 - Gnarr í 100 daga

Í dag (22. sept) er sagt að hveitibrauðsdögum (100 talsins) Gnarrista við stjórn Reykjavíkurborgar sé lokið. Þá má semsagt gagnrýna helvítið og friðurinn ætti að vera úti. Ég man reyndar ekki eftir neinu gagnrýnisefni nema þá helst þessu með laun varafulltrúa í borgarstjórn. Kannski þarf bara að útskýra það betur. Ég bý líka í Kópavogi svo það er ekki að marka. Mér finnst Samfylkingin ekki hafa riðið feitum hesti frá þessu samstarfi. Það álit gæti þó breyst. Kannski er þeim mikilvægast að halda Sjálfstæðismönnum frá kjötkötlunum. 

Ásamt hefðbundnum svefnmeðölum er kaffi mitt helsta svefnmeðal. Skil ekki þá sem hafa talið sjálfum sér og öðrum trú um að kaffið sé óvinur svefnsins númer eitt. Nú er ég andvaka, nýbúinn að drekka fullan stóran kaffibolla, taka hálfa pínulitla svefntöflu og blessuð syfjan að koma.

Nú gengur maður undir manns hönd með að fullyrða að ekki megi sækja fólk til saka nema líkur á sakfellingu séu mjög miklar. Þetta kann að vera eitthvað sem sækjendur miða við og þá hljóta þeir að gera það miðað við eigið álit. Að heimfæra þetta á saksókn yfirleitt er mesta vitleysa. Flestum ákærum ætti þá að ljúka með sakfellingu en svo er ekki. Þetta mætti þó athuga.

Sumum finnst allt snúast um þennan árans landsdóm. Mér finnst hann einfaldlega litlu máli skipta. Sannleiksnefnd eftir Suður-Afrískri fyrirmynd væri miklu fremur það sem okkur Íslendinga vanhagar um. Við þurfum svo sannarlega að fara að gera eitthvað annað en að súrmúla sífellt útaf þessu hruni. Það er liðin tíð og lítið sem við getum endurheimt af þeim peningum sem frá okkur var stolið.

„Umskipti hjá Samfylkingunni" segir mbl.is kotroskið mjög í fyrirsögn. Það er engu líkara en það sé takmark Morgunblaðsritstjórans fræga að Samfylkingunni gangi sín barátta sem verst. Hélt að takmark hans væri velgengni Sjálfstæðisflokksins. En það er eitt aðaleinkenni stjórnmálabaráttu að þegar einum gengur vel gengur öðrum illa. Þannig verður niðurlæging andstæðingsins smám saman jafnmikilvæg eigin velgengni. Þetta er það sem mér gengur verst að sætta mig við í þeirri margfrægu baráttu sem senn hefur lokið við að gleypa hrunið. Best er að vera ekki ofurseldur þessari fúlu samkeppni allri saman og reyna að hafa áhuga á einhverju öðru.

Daglega og stundum oft á dag hljóma í kollinum á mér nokkrar ljóðlínur úr revíu sem ég hef einhverntíma heyrt. Þessar ljóðlínur eru alls ekki merkilegar og nú ætla ég að athuga hvort þær hverfa ef ég skrifa um þær hér á blogginu. Í þessari revíu var af einhverjum ástæðum verið að fjölyrða um konuskipti á Grænlandi og þau fjalla um það og eru svona:

Þeir segja að það verði vafalaust
að vera milligjafarlaust.
En umfram allt það verði bara tafarlaust.

Ágætis rím reyndar en ekki er hægt að segja að þessar ljóðlínur séu merkilegar fyrir neitt annað.

IMG 3220Arkitektúr með augu og nef.


Bloggfærslur 22. september 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband